Heyskapur hefur gengið heldur hægt
Heyskapur í Húnaþingi og á Ströndum hefur gengið heldur hægt, að sögn Önnu Margrétar Jónsdóttur, ráðunautar hjá RML á Blönduósi. „Þurrkar og kuldi hömluðu sprettu framan af svo heyskapur hófst seinna en vant er."
Vel gekk þó að heyja í júlímánuði og náðu menn þá vel verkuðum heyjum og flestir kúabændur luku fyrri slætti,“ sagði Anna Margrét í samtali við Feyki nú í vikunni.
Sauðfjárbændur sem þurftu vegna kaldrar tíðar í vor að beita sín tún lengur en oft áður, biðu margir eftir meiri sprettu og áttu því talsvert eftir af fyrri slætti í byrjun ágústmánaðar, að sögn Önnu Margrétar.
„Ég held að í Húnaþingi vestra heyskapur víðast gengið þokkalega framan af og fyrri sláttur ætti að hafa náðst vel verkaður en spretta hins vegar víða lítil eða mjög lítil vegna kuldatíðar og þurrka,“ sagði Sigríður Ólafsdóttir, ráðunautur hjá RML á Hvammstanga, þegar Feykir hafði samband við hana í vikunni. „Núna í ágúst hefur verið votara og hlýrra sem er gott fyrir sprettu en hefur hins vegar aðeins verið að trufla menn við að ná heyjum,“ sagði Sigríður ennfremur.