Hjálpar til við uppbyggingu eftir jarðskjálftana í Ekvador
Ung kona frá Hvammstanga, Hildur Valsdóttir hefur dvalið í Ekvador síðan í janúar á þessu ári. Hún var stödd þar ytra þegar jarðskjálfti af stærðinni 7,8 reið þar yfir í apríl. Síðan hefur hún haldið úti söfnun fyrir fjölskyldur á svæðinu. Feykir hafði samband við Hildi og spurðist fyrir um starf hennar þar.
Húsið sem Hildur bjó í var meðal þeirra sem hrundu í skjálftanum en hún var stödd í heimsókn hjá vinum á hóteli um 2 km fyrir utan Canoa þegar hann reið yfir. Ætla má að um 90% húsa í bænum hafi hrunið í skjálftanum.
„Mig langar að gera svo margt og mig langar að gera það núna, en það virðist því miður vera þannig að ég þurfi að bíða og á meðan geri ég mitt besta til að hjálpa fólki í hversdagslífinu. Biðina get ég líka notað til að safna meiri pening,“ segir Hildur meðal annars í viðtali í 18. tölublaði Feykis sem kom út í gær.