Hvíldarinnlagnir á Hvammstanga

Þessi myndarlegi hrútur er í fallegum garði við Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga. Mynd: KSE
Þessi myndarlegi hrútur er í fallegum garði við Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga. Mynd: KSE

Hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga er nú í boði ný þjónusta, sem felur í sér endurhæfingar- og hvíldarinnlagnir. Þrír einstaklingar geta nýtt sér þjónustuna á hverjum tíma. Markmið þessa er að aðstoða aldraðra einstaklinga við að efla og viðhalda eigin færni til athafna daglegs lífs.

Þjónustan er bæði fyrir þá sem búa heima og eru að glíma við minnkandi færni sem og þá sem vegna sjúkdóma eða slysa þurfa á endurhæfingu að halda til að komast aftur heim. Auglýst hefur verið að þjónustan sé opin fyrir þá sem á þurfa að halda, óháð búsetu, og ef íbúar á starfssvæði HVE Hvammstanga eigi ættingja eða vini sem gætu haft gagn af þjónustunni eru þeir hvattir til að láta þá vita af þessum möguleika.

Tímalengd innlagnar fer eftir mati á þörfum hvers og eins en miðað er við 2-4 vikur. Til að fá nánari upplýsingar um þjónustuna má senda fyrirspurn á netfangið: heilsudvol.hvammstangi@hve.is eða hafa samband við HVE Hvammstanga í síma 432 1300.

Fleiri fréttir