Kanínukjöt úr Húnaþingi vestra?

Hugmynd um rekstur kanínubús og sölu kjötsins til veitingahúsa og neytenda hefur tekið á sig skýra mynd að undanförnu. Framtakið hefur hlotið stuðning frá Atvinnumálum kvenna en IMPRA hefur séð um gerð viðskiptaáætlunarinnar og markaðskönnunar.

Að mati Birgitar Kositzke sem áformar að setja á laggirnar kanínurækt til manneldis í Húnaþingi vestra  er kanínukjöt spennandi valkostur fyrir sælkera og kröfuharða neytendur þar sem kjötið er hollt og inniheldur minni fitu og kólesteról en aðrar kjöttegundir. Kannanir sem gerðar voru bæði í Kringlunni og Húnaþingi vestra í vor 2011 staðfesta eftirspurn eftir nýjum kjöttegundum. Þó að flestir aðspurðra hefði aldrei borðað kanínukjöt, voru 75 % tilbúin að smakka það ef það væri á markaðnum á Íslandi.

Áætlað er að kanna betur möguleika til fjármögnunar og markaðssetningar til þess að reka búið á hagkvæman hátt. Einnig verður sett upp netkönnun á heimasíðunni www.kanína.is sem lýkur í lok júní.

Á heimasíðunni er einnig hægt að finna frekari upplýsingar um verkefnið. Á komandi vikum verður unnið í því að gera heimasíðuna að upplýsingatorgi um holdakanínurækt á Íslandi.

Við viljum nú þegar þakka öllum sem sýnt hafa okkur stuðning með því að taka þátt í könnuninni og hvetja aðra að taka þátt.

Fleiri fréttir