Meistaradeild KS í hestaíþróttum hefst í kvöld - Liðakynning

Keppni í Meistaradeild KS í hestaíþróttum hefst í kvöld á gæðingalist, sem áður kallaðist gæðingafimi, en þar eru sýndir vel þjálfaðir gæðingar á listrænan hátt, þar sem öll þjálfunarstigin eru sýnd. Hinar keppnirnar, fjórgangur fer fram 8. mars; fimmgangur 17. mars; slaktaumatölt 5. apríl; 150m og gæðingaskeið sumardaginn fyrsta 20. apríl og lokakvöldið er svo áætlað 28. apríl þegar keppt verður í tölti og flugskeiði.

Átta lið taka jafnan þátt í mótinu og fellur það lið út sem verður lægst að stigum að lokinni mótaröð. Hofstorfan rak lestina í fyrra og af þeim sökum missti liðið sæti sitt í keppninni. Auglýst var eftir liðum til að taka þátt í forkeppni í janúar en aðeins eitt lið sóttist eftir því lausa sæti sem í boði var og fær því beina inngöngu í deildina. Liðið sem kemur nýtt inn er lið Uppsteypu og verður það kynnt til sögunnar síðar þar sem það er aftarlega í stafrófinu.
Stjórn Meistaradeildarinnar kynnti liðin á  Facebook-síðu sinni sem einnig hefur birst í Feyki. En hefjum kynninguna.

Dýraspítalinn Lögmannshlíð

Fyrst í röðinni er Dýraspítalinn Lögmannshlíð en það keppti undir merkjum Leiknis í fyrra og fór með sigur úr bítum. Sigrún Rós Helgadóttir er liðsstjóri en hún er útskrifuð reiðkennari frá Háskólanum á Hólum ásamt því að starfa við þjálfun hrossa á Hofi á Höfðaströnd. 
Með henni í liði eru Gestur Júlíusson, dýralæknir í Eyjafirði, Þorsteinn Björn Einarsson, útskrifaður reiðkennari frá Hólum og þjálfari á Hofi á Höfðaströnd, Agnar Þór Magnússon, hrossaræktandi á Garðshorni á Þelamörk og ný inn í deildina kemur Katla Sif Snorradóttir, nemandi á fyrsta árið við Háskólann á Hólum.

Eques

Næsta lið til kynningar í Meistaradeild KS er lið Eques sem endaði í 7. sæti í fyrra. Þar fer fremstur í flokki Baldvin Ari Guðlaugsson, hrossaræktandi á Efri-Rauðalæk í Hörgársveit. Með honum eru Guðmundur Karl Tryggvason, þjálfari og hrossaræktandi kenndur við Króksstaði í Eyjafjarðarsveit; Vignir Sigurðsson, þjálfari og hrossaræktandi í Litlu-Brekku við Hjalteyri í Hörgársveit.
Nýir inn í deildina koma Egill Már Þórsson, tamningamaður og sauðfjárbóndi í Skriðu Hörgársveit og Gústaf Ásgeir Hinriksson, reiðkennari frá Háskólanum á Hólum, en þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem hann er liðsmaður í Meistaradeild KS.

Equinics

Klara Sveinbjörnsdóttir er liðsstjóri Equinics en hún starfar sem reiðkennari við Háskólanum á Hólum. Lið Equinics seinasta árs endaði í 6. sæti með 278,5 stig. Með henni er Sigurður Heiðar Birgisson, einnig reiðkennari við Háskólann á Hólum og þjálfari í Ríp og Guðmunda Ellen Sigurðardóttir, nemandi á þriðja ári við Háskólann á Hólum.
Einnig koma tvær nýjar inn í deildina en það er Skagfirðingurinn Björg Ingólfsdóttir á Dýrfinnustöðum og knapi í Landsliði U-21 og Ólöf Rún Guðmundsdóttir, þriðji reiðkennarinn í liðinu sem útskrifast hefur frá Háskólanum á Hólum.

Hrímnir

Fjórða liðið sem kynnt er til leiks í Meistaradeild KS í ár er lið Hrímnis en það lenti í 5. sæti í seinustu keppni með 302,5 stig Hinn heimsþekkti knapi Þórarinn Eymundsson stjórnar liðinu en hann er, eins og margir aðrir í þessari keppni, reiðkennari við Háskólann á Hólum og að auki reiðmeistari FT.
Með honum í liði er Húnvetningurinn Fanney Dögg Indriðadóttir, frá Grafarkoti, útskrifaður reiðkennari og Sunna Sigríður Guðmundsdóttir, nemandi á þriðja ári í Háskólanum á Hólum. Ný inn í deildina koma þau Arnar Máni Sigurjónsson, Árbæingur sem spókar sig um í Skagafirði á meðan hann stundar nám í Háskólanum á Hólum ásamt því að vera í U21 árs landsliði Íslands og Þórgunnur Þórarinsdóttir, nemandi á Hestabraut FNV og knapi í U21 árs landsliði Íslands.

Íbishóll

Fimmta liðið sem kynnt er til leiks er sigurliðið frá árinu 2021, lið Íbishóls, en það endaði 2. sætinu í fyrra með 385 stig. Fátt er reynslunni fróðara, segir gamalt máltæki og á það vel við liðsstjóra þessa liðs, Magnús Braga Magnússon, hrossaræktanda á Íbishóli á Langholti.
Með honum er sonur hans Guðmar Freyr Magnússon nemandi á þriðja ári við Háskólann á Hólum, en hann var kjörinn knapi ársins 2022 hjá hestamannafélaginu Skagfirðingi og árið áður efnilegasti knapi ársins 2021 af valnefnd Landssambands hestamanna. Það eru engir aukvisar sem skipa önnur sæti liðsins því þar eru einnig Védís Huld Sigurðardóttir, þjálfari á Sunnuhvoli í Ölfusi, Freyja Amble Gísladóttir, þjálfari JF hesta, og ný inn í deildina kemur Árný Oddbjörg Oddsdóttir, reiðkennari frá Háskólanum á Hólum.

Storm Rider

Næsta lið sem kynnt er til leiks í Meistaradeild KS þennan veturinn er Storm Rider. Liðið er feiknasterkt og hafnaði í 4. sæti eftir síðasta keppnistímabil með 332 stig. Foringi liðsins er Elvar Einarsson á Skörðugili en hann er útskrifaður tamningamaður og reiðkennari frá Hólaskóla. Þá má geta þess svona til upplýsinga að hann er einnig formaður formaður hestamannafélagsins Skagfirðings.
Með Elvari er Bjarni Jónasson, þjálfari á Staðarhofi, hinu nýja í Staðarhreppi hinum forna, og Weierholz í Sviss, margreyndur keppnismaður og sýnandi. Þá er sonur Bjarna, Finnbogi, einnig í liðinu, útskrifaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum og þjálfari á Staðarhofi, Arndís Björk Brynjólfsdóttir reiðkennari á hestabraut FNV og Ásdís Ósk Elvarsdóttir nemandi á þriðja ári við Háskólann á Hólum en hún hefur sýnt það frá unga aldri að vera meðal bestu knapa hverrar keppni sem hún tekur þátt í. Stendur hún þétt við bakið á liðsstjóranum sem er einmitt faðir hennar.

Uppsteypa

Þá er komið að næst síðasta liðinu sem kynnt er til leiks en þar er á ferðinni lið Uppsteypu. Húnvetningurinn Ísólfur Líndal Þórisson er liðsstjóri liðsins en hann er reiðkennari frá Háskálanum á Hólum.
Með honum er sonur hans Guðmar Líndal nemandi sem starfar við þjálfun hrossa en þetta er hans fyrsta ár í deildinni, Randi Holaker verkefnastjóri Reiðmannsins og reiðkennari við LBHI, Elvar Logi Friðriksson skagfirskur Húnvetningur sem starfar sem tónlistarkennari og Fredrica Fagerlund reiðkennari og tamningakona frá Háskólanum á Hólum.

Þúfur

Það lið sem síðast er í stafrófinu, af þeim sem taka þátt í Meistaradeildar KS, er einnig talið síðast upp í liðakynningu, lið Þúfna. Eitt er víst að liðsstjórinn, Mette Mannseth, ætlar ekki að láta telja liðið síðast upp eftir keppni kvöldsins en það hefur sigrað í liðakeppninni í gæðingafimi, nú gæðingalist LH, síðustu ár.
Mette er yfirreiðkennari við Háskólann á Hólum og sigurvegari einstaklingskeppni deildarinnar síðustu þrjú ár. Henni til halds og trausts er eiginmaðurinn Gísli Gíslason hrossaræktandi og þjálfari á Þúfum, Lea Busch útskrifaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum og Barbara Wenzl reiðkennari við Háskólann á Hólum ásamt því að reka tamningastöð í Bæ á Höfðaströnd. Nýr inn í þetta lið kemur Daníel Gunnarsson þjálfari og meðeigandi í Miðsitju.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir