Mikil aukning gesta í Selasetrið

Á vef Ríkisútvarpsins er sagt frá því að gestum Selaseturs Íslands á Hvammstanga hefur fjölgað um 112% á síðastliðnum tveimur árum. Aðsókn í setrið, það sem af er þessu ári, hefur einnig verið afar góð og búist er við að fyrri met falli.

Á milli áranna 2011-2012 fóru gestir selasetursins úr 5.300 upp í 10.800 og í ár hefur einnig orðið mikil aukning í gestakomum á setrið. Vignir Skúlason er framkvæmdastjóri Selasetursins. „Og núna var 406 % aukning í maí, 108% aukning í júní, mér sýnist júlí standa bara nokkuð svipaður og í fyrra en það er ánægjulegt að sjá að það er að bæta svona í axlirnar eins og sagt er í ferðaþjónustunni. Það eru svona jaðarmánuðirnir við háönnina, þannig að háönnin er að lengjast,“ segir Vignir.

Gestum hefur ekki bara fjölgað í Selasetrinu heldur starfsfólki líka og býst Vignir við því að árið í ár verði metár hvað gestakomur varðar. „Aukningin er töluvert meiri en meðalaukning heimsóttra ferðamanna á landsvísu og ég held að þetta sé að mörgu leyti hnitmiðuð markaðssetning og samvinna með öðrum í svipuðum greinum, samvinna er lykilinn.“

Fleiri fréttir