Óþolandi þegar fólk tekur sér það bessaleyfi að snerta mann á óviðeigandi hátt
Mikið hefur verið rætt um dónakarla og – kerlingar undanfarið í kjölfarið á því að söngkonan Salka Sól ritaði orðsendingu á Tvitter til manns sem áreitti hana kynferðislega er hún var á leið upp á svið á árshátíð þar sem hún var að skemmta. Margir hafa stigið fram og sagt álíka sögur og m.a. segir söngkonan Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir á fébókarsíðu sinni frá dónaskap og óvirðingu sem bæði karlmenn og konur hafa sýnt henni.
„Já, dónakarlar og kerlur eru víða. Ég er búin að koma fram sem tónlistarmaður í rúm 20 ár. Ég get ekki lengur talið þau skipti sem bæði karlmenn og konur hafa sýnt mér óvirðingu og dónaskap. Jú fulli karlinn og fulla kerlingin eru augljós dæmi sem mörgum er tíðrætt um núna enda er það óþolandi þegar fólk tekur sér það bessaleyfi að snerta mann á óviðeigandi hátt eða sýna manni dónaskap í látbragði eða orðum. Stundum er hamagangurinn svo mikill að maður má prísa sig sæla að hafa ennþá tiltölulegar heilar framtennur og að fötin eru nokkurn veginn í heilu lagi. En dónaskapur og vanvirðing á sér margar myndir. Þegar ég var 17 ára gaf virðulegur maður úr bransanum í skyn við mig að vegna þess að hann hefði "hjálpað" mér svo mikið væri í lagi að hann kæmi við brjóstin á mér (á almannafæri). Þegar ég var 18 ára vatt maður sér upp að mér á bar og tilkynnti mér að það væri merkilegt hvað ég syngi vel miðað við hvað ég væri ljót. Í pásu á einu gigginu stóð ég við barinn þegar maður kom aftan að mér og byrjaði að "hömpa" á mér afturendann. Öðrum karlmönnum við barinn fannst þetta ferlega fyndið (karlkyns vinum mínum líka), mér var ekki skemmt. Konur hafa líka rifið í mig á sviðinu og hreytt í mig dónaskap og hótunum ef "þeirra lag" er ekki spilað. Morðhótun undir Abbaslagara...það er kósý,“ segir Hrafnhildur Ýr á Fésbókarsíðu sinni.