Rannsóknarsetur HÍ á Skagaströnd hlýtur verkefnastyrk

Rannsóknasetur HÍ á Skagaströnd. Mynd: Facebooksíðan Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra.
Rannsóknasetur HÍ á Skagaströnd. Mynd: Facebooksíðan Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra staðfesti á dögunum tillögur valnefndar um verkefnastyrki vegna fjarvinnslustöðva sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024. Þrjú verkefni hlutu styrk og var verkefni Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra, Gagnagrunnur sáttanefndarbóka, eitt þeirra.

Að þessu sinni var 24 milljónum króna úthlutað til þriggja verkefna fyrir árin 2019-2020. Þá hafa einnig verið gefin fyrirheit um styrki að heildarupphæð 55 milljónir króna til ársins 2023. Auglýst voru framlög fyrir árin 2019-2020 en heimilt er að styrkja sama verkefni til allt að fimm ára, með fyrirvara um fjárheimildir fjárlaga hvers árs, að því er segir á vef stjórnarráðsins. Þar segir einnig að markmiðið með framlögum vegna fjarvinnslustöðva sé annars vegar að koma opinberum gögnum á stafrænt form og hins vegar að fjölga atvinnutækifærum á landsbyggðinni.

Við mat á umsóknum var stuðst við þætti eins og íbúaþróun, samsetningu atvinnulífs og atvinnustig og þróun á starfsmannafjölda viðkomandi stofnunar undanfarin ár. Byggðastofnun annast umsýslu verkefnastyrkjanna og verða samningar vegna styrkjanna undirritaðir snemma á nýju ári.

Verkefnin sem hlutu styrk að þessu sinni eru:

  • Skráning þinglýstra gagna í landeignaskrá. Samstarf við verkefnið Brothættar byggðir í Hrísey og Grímsey. Þjóðskrá Íslands hlýtur styrk sem nemur 9 m.kr. árið 2020 og 9 m.kr. árið 2021. Samtals 18 m.kr.
  • Gagnagrunnur sáttanefndarbóka. Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra, í samstarfi við Héraðsskjalasafn Skagfirðinga og Þjóðskjalasafn hlýtur styrk að upphæð 9 m.kr. á ári í þrjú ár, árin 2020-2022, og 4,6 m.kr árið 2023, samtals 31,6 m.kr. 
  • Rafræn skönnun fjölskyldumála á landsvísu. Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra hlýtur styrk að upphæð 6 m.kr. árið 2020.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir