Stefnt á að klára brúna yfir Vesturhópshólaá fyrir sumarið

Fyrri stöpull brúarinnar er tilbúinn. Mynd: Vegagerðin.
Fyrri stöpull brúarinnar er tilbúinn. Mynd: Vegagerðin.

Brúavinnuflokkur Vegagerðarinnar vinnur að byggingu brúar yfir Vesturhópshólaá á Vatnsnesvegi og segir í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar að framkvæmdir hafi gengið vel framan af en þær hófust í haust. Í desember og janúar lá vinna að mestu niðri vegna kuldatíðar en stefnt er að því að klára framkvæmdir við brúna fyrir sumarið en samhliða er unnið að vegagerð á rúmlega tveggja kílómetra kafla.

„Við höfum lítið getað unnið á staðnum síðan í byrjun desember þegar datt í mikið frost hér fyrir norðan. Upp úr miðjum janúar var allt komið á syngjandi kaf í vatni og klaka svo við bíðum enn eftir að geta haldið áfram,“ er haft eftir Vilhjálmi Arnórssyni yfirverkstjóra brúavinnuflokks Vegagerðarinnar á Hvammstanga í Framkvæmdafréttum síðla í janúar.

Bygging brúar yfir Vesturhópshólaá og vegagerð á Vatnsnesvegi var fyrst boðin út í byrjun árs 2022 en engin tilboð bárust í verkið og því var ákveðið að skipta verkinu í tvennt, annars vegar brúarsmíði og hins vegar vegagerð. Fyrirtækið Steypudrangur sér um vegagerðina sem er langt komin en verkið snýst um nýbyggingu Vatnsnesvegar á um eins kílómetra kafla, byggingu nýrra heimreiða eða tenginga, samtals um 400 m og endurbyggingu á um 1,2 km kafla milli Vesturhópshóla og Þorfinnsstaða á Vatnsnesi í Húnaþingi vestra.

Brúavinnuflokkur Vegagerðarinnar fékk það hlutverk að byggja brúna sjálfa. Brúin verður eftirspennt plötubrú í einu hafi, 17 m löng, heildarlengd 19,13 m. Brúin verður með 9 m breiðri akbraut og með 0,5 m breiðum kantbitum, alls um 10 metra breið. Nýja brúin verður 20 til 24 metrum sunnan við núverandi brú sem er einbreið og í lélegu ástandi.

„Þessi nýi kafli á Vatnsnesvegi verður kærkominn fyrir íbúa á svæðinu, svo og ferðamenn sem aka veginn að hinum vinsæla Hvítserk. Langt er þó í land en Vatnsnesvegur er 70 kílómetra malarvegur frá Hvammstanga og út fyrir Vatnsnes. Vegurinn hefur verið til umfjöllunar síðustu ár enda ástand hans oft slæmt, ekki síst í vætutíð. Samkvæmt talningu árið 2019 aka 186 bílar veginn á sólarhring yfir árið (ÁDU) en meðalumferð á sumrin (SDU) er 343 bílar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir