Þungir knapar bannaðir - Leiðari Feykis

Þungur knapi á þungum hrossum.
Þungur knapi á þungum hrossum.

Nú eru uppi umræður innan hestasamfélagsins að knapar ættu ekki vigta meira en 20% af þunga hestsins. Það segir manni að flestir fullorðnir karlmenn ættu að snúa sér að öðru en útreiðum því 20% af meðalþyngd hests, sem mun vera um 350 kg, er 70 kíló. Einhver kann að halda að hér sé á ferðinni eitthvert grín en svo er alls ekki.

Á ráðstefnu FEIF, alþjóðasamtaka eigenda íslenska hestsins, sem haldin er í Stokkhólmi í Svíþjóð um helgina, verður þetta til umræðu. Líklega geta þeir sem stunda útreiðar sér til ánægju andað léttar um sinn en ef ég skil þetta rétt snýst málið um velferð íslenska hestsins í hestaíþróttum, keppnum og sýningum.

„Sífellt fleiri hestafélög um allan heim hófu umræðu um svokallað „félagslegt rekstrarleyfi“ (social license to operate) – umhyggjuna fyrir velferð og notkun hrossa, breytt viðhorf samfélagsins varðandi dýranotkun, vaxandi óánægju almennings vegna notkunar hrossa í íþróttum og velferðarsjónarmiðum hestamanna,“ þýðir Google translate fyrir mig úr dagskrá ráðstefnunnar. Það verður fróðlegt að sjá hvað út úr þessari umræðu kemur en margir trúa því að ef af verður munu keppnir á heimsmeistara- og Evrópumótum íslenska hestsins líða undir lok, nema knapar passi upp á línurnar eða rækti stærri og þyngri hesta.

Sagan hefur kennt manni, og ekki síst núna seinustu áratugina, að ef hægt er að setja reglur þá sé best að setja reglur, burt séð frá því hvort eitthvert vit er í þeim. Þetta sést úti um allt, ekki síst á hinu háa Alþingi þar sem ýmsar reglur og lög eru smíðuð, eða tekin hrá upp frá Evrópubandalaginu, sem í rauninni gera ekkert gagn a.m.k. ekki það sem til er ætlast.

En ekki er vinsælt að benda á eitthvað annað til að bæta bölið. Ég ætla samt að reyna. Þessi þyngdarmörk gætu nefnilega sloppið hjá mér þar sem hrossin mín eru yfirleitt svo sílspikuð að ég gæti hugsanlega fallið innan 20% mörkin. Þá geri ég líka ráð fyrir því að þau séu 100 kílóum þyngri en keppnishestur í topp þjálfun. Og þá erum við kannski komin að aðalatriðinu.

Hestur sem þjálfaður er til einhvers brúks stendur yfirleitt undir verkefninu. Hér áður fyrr riðu höfðingjar og stórbændur landshorna á milli, einhesta og jafnvel járnalausum, fleiri tugi kílómetra á dag. Hrossin þoldu það því þau voru í þjálfun. Vinnuhestar voru mikið notaðir, ýmist spenntir fyrir aktygi eða báru hlöss landshluta á milli. Heima á bæjum voru þeir ómissandi við bústörfin og marga hestburði fluttu þeir en hestburður er forn íslenskt mælieining af þurru heyi en áætlað var að einn hestur gæti borið 100 kíló með góðu móti.

Það væri líka kúnstugt að sjá gangnaseðil framtíðarinnar: „Bændastaðir skulu útvega fjóra gangnamenn, eigi þyngri en sem nemur 20% af þyngd gangnahesta. Ef riðið er í mjög þýfðu landi skal stansa á 10 mínútna fresti og leyfa hrossi að pústa og jafna sig. Munið eftir fénu!“
Góðar stundir!

Páll Friðriksson, ritstjóri

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir