Veiðist vel í Víðidalsá
Samkvæmt veiðivefnum lax-á.is er ekki hægt að kvarta yfir fiskleysi í Víðidalsá þetta árið. Haft er eftir veiðiverði í ánni að búið sé að landa fleiri löxum í sumar en allt síðasta sumar. Það eru einnig komnir fleiri laxar en á sama tíma og sumarið 2011.
Mest er um 5-7 punda laxa í Víðidalsánni en í fyrrakvöld kom einn 93 sm. lax í Raufarhöfn í Fitjá. Áberandi er hvað laxinn er vel dreifður um árnar miðað við undanfarin sumur en það veiðist í nær öllum hyljum sem reynt er við.
Af silungasvæðinu er það að frétta að þar er góð veiði, þegar einhver er að veiða. Veiðivörðurinn lagði saman hvað væri komið í bókina, en það eru 17 laxar, 145 bleikjur og 45 urriðar sem er óvenjulegt fyrir þennan tíma. Urriðarnir eru nokkrir vænir eða 7-8 pund og um og yfir 70 sm.