120 milljónir í verkefnastyrki til að efla byggðir landsins

Ráðherra úthlutar 120 milljónum krónum  í verkefnastyrki til að efla byggðir landsins. Mynd: stjornarradid.is
Ráðherra úthlutar 120 milljónum krónum í verkefnastyrki til að efla byggðir landsins. Mynd: stjornarradid.is

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur undirritað samninga við sex landshlutasamtök sveitarfélaga um níu verkefnastyrki sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024. M.a. fara 20 milljónir í innviðauppbyggingu vegna gagnavers á Blönduósi árið 2018 og 25 milljónir á ári næstu þrjú ár á eftir.

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra fá styrkinn til að byggja upp innviði vegna fyrirhugaðs gagnavers BDC við Blönduós. Gera þarf götur og lýsingu, leggja rafmagn, vatns- og fráveitulagnir o.fl. Með verkefninu skapast 20-30 störf í fyrsta áfanga.

Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að 120 milljónum króna hafi verið úthlutað að þessu sinni fyrir árið 2018 til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum. Alls bárust 26 umsóknir um styrki að fjárhæð tæpar 441 m.kr.

„Það er okkur mikil ánægja að unnt sé styrkja mörg áhugaverð og fjölbreytt verkefni um land allt á grundvelli nýrrar byggðaáætlunar. Ákveðið var að veita styrki að fengnum umsóknum en þetta er í fyrsta sinn sem framlög úr byggðaáætlun eru sett í samkeppnispott með þessum hætti. Fleiri samkeppnispottar af þessu verða auglýstir jafnt og þétt,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við undirritun samninganna í gær.

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir