Áhugavert, lærdómsríkt og stórfurðulegt

Katrín Lilja til í tuskið á enskri grund. AÐSEND MYND
Katrín Lilja til í tuskið á enskri grund. AÐSEND MYND

ÁR ÞÚ VEIST HVAÐ :: „Súkkulaði Trítlum!“ segist Katrín Lilja Kolbeinsdóttir Hansen vilja henda á brennuna þegar hún fer yfir árið 2020 fyrir Feyki. Katrín Lilja, sem er Varmhlíðingur, starfar við gæðaeftirlit hjá fyrirtæki sem heitir Silver Crane en hún býr á Wimborne Road í Bournemouth í landi Engs. Hún er sporðdreki alveg í gegn og lýsir árinu svona í þremur orðum: „Áhugavert, lærdómsríkt og stórfurðulegt.“

Hver er maður ársins? Það er úr svo ótrúlegri flóru fólks að velja sem allt hefur lagt sitt á vogaskálarnar til að gera þetta erfiða ár aðeins bærilegra bæði fyrir sig og aðra. Allt frá magnaða þríeykinu sem hefur stýrt skútunni frá upphafi með her ofurhetja í heilbrigðisgeiranum sér að baki, til alls stórkostlega listafólksins sem að létti lund landans í erfiðustu öldunum. Ég tilnefni Lilju Gunnlaugsdóttur frá Áshildarholti. Hvernig hún hefur tekist á við gríðarlega erfiða reynslu með því að einbeita sér að eigin uppbyggingu sem getur líka gagnast öðrum sem þurfa á því að halda, það er aðdáunarvert!

Hver var uppgötvun ársins (fyrir utan bóluefni við þú veist hvað)? Það er freistandi að segja þegar ég tók bakaraofninn minn í gegn og fattaði að það á að vera hægt að sjá inn í hann. En uppgötvun ársins hlýtur að vera hvað fólk er raunverulega fært um þegar það stendur saman og lætur sér annt um aðra. Hvað fólk getur virkilega afrekað þegar það tekst á við sameiginlega ógn með kærleikann að vopni. Heilu hverfin á Ítalíu sungu sig saman í gegnum fyrstu bylgjuna, heilu bæirnir klöppuðu fyrir heilbrigðisstarfsfólki hér í Englandi, heilt land þjappaði sér saman fyrir samlanda sína á Seyðisfirði. Ég s.s tilnefni það uppgötvun ársins að sjá hversu djúpt manngæska getur rist.

Hvað var lag ársins? Ég er vandræðalega léleg í að fylgjast með nýjustu straumum og stefnum í tónlist, sú tónlist sem ég uppgötva er alltaf margra ára gömul. Ég ætla að skjóta á að lagið Esjan með söngkonunni Bríet hafi komið út á þessu ári, allavega heyrði ég það fyrst fyrir nokkrum mánuðum og alveg kolféll fyrir því!

Hvað var broslegast á árinu? Heyrðu það hlýtur bara að vera kosningin um mörgæs ársins hjá Þjóðardýragarði Nýja Sjálands. Í hverjum mánuði velur starfsfólkið góðu og slæmu mörgæs mánaðarins og týnir til hinar ýmsu ástæður.  Í lok árs er svo opnað fyrir kosningu og fólk út um allan heim kýs mörgæs ársins. Það er hægt að fylgjast með þessu á Facebook síðu dýragarðisns, þetta árið hreppti mörgæsin Kapteinn titilinn! Það sem er broslegast við þetta er hversu alvarlega fólk tekur þessa frábæru keppni, og ástæðurnar sem týndar eru til. Mæli sterklega með þessu! Svo reyndar fannst mér líka tilefni til að brosa þegar ákveðin appelsína var kosin út úr Hvíta Húsinu í október, en það er efni í annan mun lengri pistil!

Hvað var það sem þú sérð mest eftir að hafa ekki geta gert á árinu vegna þú veist hvað? Að komast ekki í mína árlegu Íslands ferð. Hef heimsótt Ísland að lágmarki einu sinni á ári síðan ég flutti út árið 2017, frú Kóróna rændi þeirri ferð hins vegar af mér þetta árið. Alheiminum sé lof fyrir tæknina, hef getað verið í góðu sambandi við allt mitt fólk þrátt fyrir allt.

Varp ársins? Ekki eitthvað sem kom nýtt fram á sjónvarpssviðið á þessu ári, þetta er hins vegar árið sem hann sprakk algjörlega út og það með réttu! Randy Rainbow (já það er raunverulega nafnið hans), hefur tekið kómísk augnablik úr bandarískum stjórnmálum frá því Trump var kjörinn, og gert stórkostlega söngleiki úr þeim. Hægt að hlusta á hann á YouTube og Facebook, bara slá inn nafnið hans. Ég missi ekki af myndbandi sem kemur frá þessum snilling.

Matur eða snakk ársins? Maturinn er alveg klárlega núðlusúpan sem maðurinn minn bjó til frá grunni með því að sulla saman öllu sem við áttum til sem honum datt í hug að gæti farið vel saman. Útkoman varð hreint út sagt stórkostleg! Snakk myndi ég segja ákveðið karamellusnakk sem að fæst hérna í Englandi, sennilega orsökin fyrir þessum örfáu kílóum sem ég hef bætt á mig á þessu ári.

Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? Súkkulaði Trítlum. Vegna þess að þeir eru ógeðslega vondir, gerðir úr það sem hlýtur bara að vera eldgamalt og handónýtt gúmmí, en vinir mínir halda áfram að reyna að sannfæra mig um að þeir séu það besta síðan Blár Ópal. Sem er bara ekki rétt.

Hver var helsta lexía ársins? Að við þurfum ekki að flýta okkur alltaf svona. Hér í Englandi vorum við læst inn á heimilum okkar í tæpa þrjá mánuði, við vorum í raun neydd til þess að staldra við, hætta þessu endalausa lífsgæðakapphlaupi endalaust og líta aðeins inn á við. Ég naut þess, fannst þetta mjög áhugaverður en á sama tíma mjög lærdómsríkur tími.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir