Álagningarseðill fasteignargjalda

Einar Einarsson. Aðsend mynd.
Einar Einarsson. Aðsend mynd.

Á dögunum gaf sveitarfélagið út álagningarseðla vegna fasteignagjalda árið 2024. Í ljósi þess og þeirrar umræðu sem við höfum orðið vör við í kjölfarið langar mig að setja nokkur orð á blað um tilurð þessara gjalda og stöðu sveitarfélagsins gagnvart þeim.

Oftast er talað um gjöldin á álagningarseðlinum í heild sem fasteignargjöld, en í grunninn skiptast þau í nokkra flokka sem heita fasteignaskattur, fráveitugjald, lóðarleiga, vatnsgjald og svo gjöld vegna sorps. Íbúar í dreifbýli borga ekki lóðarleigu, þar sem þeir byggja oftast á eigin landi og ekki heldur vatnsgjald enda sjá þeir sjálfir um rekstur eigin kaldavatnsveitu.

Í upphafi er einnig rétt að hafa í huga að með lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, samþykkti Alþingi að tekjustofnar sveitarfélaganna ættu að vera að meginstofni til þrír, eða fasteignaskattur af öllum skráðum fasteignum, hlutfall af útsvari launafólks og svo framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Það er sá sjóður sem ríkið notar meðal annars til að jafna mismunandi útgjaldaþörf sveitarfélaga og tryggja um leið ákveðna grunnþjónustu eins og t.d. rekstur grunnskóla.

Fasteignaskattur

Í lögum um tekjustofna sveitarfélaga kemur fram að stofn til álagningar fasteignaskatts sé fasteignamat viðkomandi fasteignar í lok ársins á undan. Fasteignamati húsa er ætlað að endurspegla verðþróun fasteigna, bæði íbúðahúsnæðis og atvinnuhúsnæðis á því svæði sem viðkomandi byggingar standa á. Við útreikninga hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, er landinu skipt upp í fjölmörg svæði. Í hverju sveitarfélagi geta því verið mörg matssvæði og má nefna sem dæmi að í Skagafirði eru aðalmatssvæðin Sauðárkrókur, Hofsós og Skagafjörður, auk þess sem Fljótin tilheyra matssvæði Stór-Eyjafjarðarsvæðis. Þá eru sérstök undirmatssvæði fyrir byggðina á milli Varmahlíðar og Sauðárkróks og annað fyrir Hóla í Hjaltadal. Markaðsverð fasteigna samkvæmt nýjustu kaupsamningunum á þessum svæðum er síðan stærsti áhrifavaldurinn á þróun fasteignamats húsa á viðkomandi svæði. Ef við lítum t.d. á Sauðárkrók þá hækkar fasteignamatið þar að meðaltali um 17,7% á milli áranna 2023 og 2024 meðan það hækkar um 4,6% á Hofsósi. Ef við hins vegar skoðum árið 2023 var hækkunin 38,7% á Hofsósi en 14% fyrir Skagafjörð í heild. Þessar breytingar eru því mjög sveiflukenndar á milli svæða og milli ára. Að meðaltali hækkaði fasteignamat íbúðarhúsnæðis í Skagafirði fyrir árið 2024 um 16,7%, atvinnuhúsnæðis um 7,2% og sumarhúsa um 20,7%. Hækkun á íbúðahúsnæði í Skagafirði er hærri en meðaltalið á landinu öllu en það var 13,7% milli áranna 2023 og 2024.

Í aðra röndina er jákvætt að þessar hækkanir séu miklar því þær staðfesta að fólk er þá að versla með fasteignir á viðkomandi svæðum á verðum sem eru hærri en árið á undan. En eftir því sem fasteignaverðið er nær raunverulegum byggingarkostnaði, því meiri líkur eru á að fólk þori að leggja verulega fjármuni og kraft í að byggja á viðkomandi svæði án þess að eiga á hættu að tapa fjármunum kjósi það svo að selja sína fasteign.

Hin hliðin á þessu háa og hækkandi fasteignamati er að það er notað samkvæmt lögum Alþingis til gjaldtöku fyrir sveitarfélögin. Samkvæmt lögunum er sveitarfélögum heimilt að leggja á fasteignaskatta sem nema allt að 0,5% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis og allt að 1,65% á aðrar fasteignir svo sem iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Þetta þýðir að sveitarstjórnir geta valið að hafa þessa álagnsprósentu lægri en einnig er í lögunum heimild til handa sveitarstjórnum landsins að hækka fasteignaskatt á flestar fasteignir umfram fyrrgreint hlutfall eða um allt að 25% hundraðshluta. Sveitarstjórn Skagafjarðar hefur samþykkt að nýta ekki fulla heimild álagningar á íbúðarhúsnæði og samþykkti að nota hlutfallið 0,475% fyrir árið 2024, sem einnig er sami stuðull og notaður var árið 2023. Neikvæða afleiðingin fyrir sveitarsjóð er að ef álagningarstuðullinn er lækkaður þá lækka framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um margar milljónir með þeim rökum að tekjumöguleikar sveitarfélagsins séu ekki fullnýttir og því sé ekki þörf á jafn háum framlögum úr sjóðnum. Það getur verið breytileg upphæð sem lækkar á milli ára en eftir því sem stuðullinn lækkar meira, því meira lækka framlög sjóðsins og geta að lokum hlaupið á tugum milljóna sem ella færu til jöfnunar á lífskjörum íbúanna.

Sveitarstjórfólk í Skagafirði hafa barist fyrir því lengi að þessi tenging verði afnumin þannig að breytingar á fasteignamati húsa hafi ekki áhrif á framlög úr Jöfnunarsjóði. Í drögum að nýjum lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga er lagt til að afnema þessa tengingu. Af hálfu ríkisins stóð til að samþykkja gildistöku nýrra laga fyrir lok síðasta árs en eftir að Reykjavíkurborg lagði fram kæru á á hendur íslenska ríkinu og krafði það um 5,4 milljarða viðbótarframlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sem þeir telja að sjóðurinn hafi hlunnfarið þá um, og á meðan það mál er í meðferð dómstóla, hefur ríkisstjórnin ákveðið að bíða með framlagningu á frumvarpinu. Óbreytt kerfi verður því við lýði eitthvað lengur.

Lóðaleiga

Lóðaleiga er gjald sem sveitarfélögin innheimta fyrir leigu á þeirri lóð sem fasteignin viðkomandi stendur á, ef viðkomandi lóð/land er í eigu sveitarfélagsins. Álagning prósentan í Skagafirði fyrir árið 2024 er sú sama og árið 2023 eða 1,5% af lóðarhlutamati íbúðarhúsnæðis og 2% af lóðarhlutamati atvinnuhúsnæðis. Krónuhækkun milli áranna 2023 og 2024 hjá lóðar leigjendum er því vegna hækkunar á mati lóðarinnar, en þær eru metnar árlega með sambærilegum hætti og fasteignamatið er gert af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Sveitarfélögin hafa nokkuð mikið val um hvaða prósentu þau velja og einnig aðferð álagningar, en sum sveitarfélög leggja á krónutölu pr. fermetra. Sé álagningarprósenta sveitarfélaganna skoðuð má einnig sjá að töluverð breidd er í hópnum en lægt er Reykjavíkurborg með 0,2% en hæsta sem ég veit um er hjá Tálknafjarðarhreppi, 3,75% á atvinnulóðir. Hvort að þessi prósentu stig sem hér eru notuð sé sanngjarnt eða ekki verður hver og einn að meta en samkvæmt skýrslu sem Byggðastofnun gaf út árið 2023 var Skagafjörður í 21 sæti, talið ofan frá. Til samanburðar má líka nefna að okkar álagningarprósenta er sambærileg og sveitarfélög eins og Norðurþing, Borgarbyggð og Ísafjörður nota.

Fráveitugjald

Fráveitugjald er greitt af öllum fasteignum í Skagafirði sem liggja við vegi, götur eða opin svæði og tengjast fráveitulögnum sveitarfélagsins. Er gjaldinu ætlað að standa straum af kostnaði við uppbyggingu og rekstur fráveitukerfisins. Álagningarstofn fráveitugjaldsins er fasteignamat húsa, mannvirkja og lóða eins og það er reiknað hverju sinni og byggist innheimta fráveitugjaldsins á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009. Samkvæmt þeim er heimilt að gjaldtakan sé allt að 0,5% af fasteignarmati. Samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar er gjaldið hér í Skagafirði 0,186% fyrir íbúðarhúsnæði en 0,275% fyrir annað húsnæði. Þetta eru sömu stuðlar og samþykkt var að nota árið 2023. Hvort það sé svo ásættanlegt eða ekki er hægt að ræða en staðreyndin er sú að rekstur þessara kerfa er dýr og fram undan eru gríðarlega kostnaðarsamar framkvæmdir við endurbætur á hreinsikerfum fráveitna í öllum okkar þéttbýlisstöðum.

Vatnsgjald

Vatnsgjaldið er innheimt með fasteignagjöldum og er eins og nafnið segir gjald vegna notkunar á köldu vatni. Sveitarfélögum er ekki heimilt að reka vatnsveitur í hagnaðarskini en gjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði við rekstur vatnsveitukerfisins. Eins og með fráveitugjaldið er heimilt að rukka allt að 0,5% af fasteignarmati en í Skagafirði er gjaldið samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar 0,16% eða að lágmarki 44,94 kr/m3 og að hámarki 53,67 kr/m3 hverrar fasteignar.

Sorpgjald

Sorpgjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði við sorphirðu, sorpeyðingu og urðun sorps, ásamt kostnaði við rekstur endurvinnslu- og móttökustöðvar. Gjaldið er innheimt samhliða fasteignagjöldum og má ekki vera hærra en sem nemur þeim raunkostnaði sem verður til við meðhöndlun úrgangs og afsetningu. Með öðrum orðum þá má sveitarfélagið ekki samkvæmt lögum nr. 55/2003 hagnast á starfseminni né heldur bera kostnað af henni. Starfsemin á að standa undir sér.

Þessa starfsemi er sveitarfélögum skylt að bjóða út samkvæmt lögum um opinber innkaup nema þau kjósi að sjá um hana sjálf. Í Skagafirði varð Íslenska Gámafélagið hlutskarpast í síðasta útboði sveitarfélagsins. Hóf fyrirtækið starfsemi hér í Skagafirði 1. apríl 2023 en áramótin þar á undan tóku gildi miklar breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs. Þar vegur þyngst verulega aukin krafa um flokkun og móttöku rekstaraðila á þeim úrgangi sem kemur frá okkur. Hluti af því er hið svokallaða fjórtunnukerfi sem á vonandi eftir að leiða okkur til meiri og betri nýtingar á öllu því rusli sem til fellur.

Við samanburð sorpgjalda á milli áranna 2023 og 2024 þarf að hafa í huga að sorpgjaldið hækkaði 1. apríl 2023 þegar nýtt kerfi tók gildi en um nýafstaðinn áramót var gjaldið ekki hækkað, heldur var tekin sú ákvörðun að sjá lokaniðurstöðu þess, þ.e.a.s hvernig málaflokkurinn kæmi út rekstarlega fyrir árið 2023 og í framhaldi af því verður tekin ákvörðun um mögulegar breytingar á gjaldskrá og þær þá kynntar eigi síðar en 1. apríl 2024. Breytingin sem fólk upplifir hins vegar á álagningarseðli fyrir árið 2024 er að þar er núverandi gjaldi skipt upp á þær fjórar tunnur sem skylda er að hafa við hvert íbúðarhús, ásamt kostnaði við rekstur móttökustöðvar. Gjaldið er í dag 98.500 kr á ári, á hvert heimili en fyrirtæki og stofnanir semja sjálf við móttökuaðila um þjónustustig og gjald fyrir það.

Að lokum

Vissulega eru þetta mikil gjöld þegar á heildina er litið, en mikilvægt er samt að muna hvers vegna þau eru og hverju þeim er ætlað að skila, en sá hluti þeirra sem fer ekki beint í viðhald á ákveðnum kerfum eins og fráveitu eða vatnsveitu fer í innviðauppbyggingu sveitarfélagsins á t.d. leikskólum, íþróttamannvirkjum eða öðrum innviðum sem þörf er á fyrir íbúana. Á seinni árum hafa mörg sveitarfélög, sérstaklega þó á suðvesturhorni landsins lagt á húsbyggendur sérstök innviðagjöld til að standa undir þeim fjárfestingum. Þessi gjöld hlaupa á milljónum og jafnvel milljónatugum á hvert hús hjá fólki sem er að byggja sér þak yfir höfuðið, en það er ekki leið sem við höfum valið til gjaldtöku.

Það er mikilvægt að skoða þessi mál í samhengi því þegar upp er staðið þarf peninga í sveitarsjóð til að reka gott samfélag sem fólk vill búa í. Hér í Skagafirði er fólki að fjölga milli áranna 2023 og 2024 ásamt því að fasteignarverðið hækkar meir en meðaltals hækkunin er á Íslandi, en hækkun þess er líka forsenda þess að hér vilji fólk byggja sér þak fyrir höfuðið og búa.

Einar E. Einarsson

Formaður Byggðarráðs Skagafjarðar

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir