Blómstrandi nýsköpun á Blönduósi

Foodsmart Nordic á Blönduósi
Foodsmart Nordic á Blönduósi

Nýja hátækni- og nýsköpunarfyrirtækið Foodsmart Nordic er að ýta úr vör starfsemi sinni á Blönduósi á sviði fæðubótarefna. Hjólin snúast hratt, framleiðsla á tilraunastigi er hafin og stefnt er að því að formleg starfsemi hefjist í sumar.

Meginmarkmið Foodsmart Nordic er að gera Ísland að virkum og vaxandi þátttakanda á alþjóðlegum fæðubótarmarkaði en að félaginu stendur öflugur hópur fjárfesta, sumir með rætur á svæðinu, sem telja framtíðarhorfur fæðubótarefna mjög vænlegar. Forsvarsmenn Foodsmart Nordic eru þau Katrín Amni Friðriksdóttir og Viðar Þorkelsson.

Sérhannað húsnæði Foodsmart Nordic að Ægisbraut 2 á Blönduósi er tilbúið og nemur fjárfestingin 500-600 m.kr. samtals í fasteign og tækjabúnaði. Um er að ræða fyrsta áfanga aðstöðunnar en stefnt er að frekari stækkun þegar fram í sækir og umsvif aukast í kjölfar fyrirhugaðrar markaðssóknar ytra.

Foodsmart Nordic framleiðir hágæða fæðubótaefni úr íslensku sjávarfangi sem áður fyrr fór forgörðum. Nýju framleiðslutækin skila úrvals hráefni í duftformi og nýtast við þurrkun á breiðu sviði af hráefnum. Rannsóknarsetur félagsins er á Skagaströnd og þar hefur staðið yfir tilrauna framleiðslu á kollageni, sem er eitt helsta uppbyggingarefni líkamans, ásamt sæbjúgnadufti og fiskpróteinum úr íslenskum þorski.

Félagið sér mikil tækifæri í framleiðslu á hágæða fæðubótarefnum úr íslenskum hráefnum í samstarfi við önnur fyrirtæki í matvælaiðnaðinum. Stefnt er að því að framleiða 150 tonn af endanlegum afurðum í þessum fyrsta áfanga fyrirtækisins á Blönduósi og verður framleiðslan gæðavottuð til útflutnings.

Mikill meðbyr er á ört vaxandi markaði fyrir fæðubótarefni í heiminum í kjölfar vakningar almennings um mikilvægi hollustu og heilsusamlegs lífsstíls. Þetta á ekki síst við um það fólk sem neytir unninnar matvöru með takmarkað næringargildi í erli dagsins. Vart verður verulegs áhuga hjá innlendum sem erlendum aðilum á starfsemi félagsins og horfur á sölu ytra eru uppörvandi.

Þessu nátengt er ákall um aukið gegnsæi framleiðslu frá neytendum og eftirlitsaðilum. Upplýsingar á borð við innihaldslýsingar og rekjanleika vöru vega meira en áður. Gjörvöll uppbygging starfsemi Foodsmart Nordic tekur mið af sjálfbærni og eitt af leiðarljósum félagsins er 100% nýting sjávarfangs. Þá er stefnt að kolefnisjöfnun starfseminnar á næstu þremur árum.

Katrín Amni Friðriksdóttir: „Staðsetningin á Blönduósi, sem tengir saman Norður- og Vesturland, veitir okkur gott aðgengi að hreinni raforku og gnægð af köldu vatni, ásamt nálægð við hreinsistöð. Við munum að langmestu leyti byggja á heimafólki enda er gríðarleg þekking á landsbyggðinni sem gaman er að geta nýtt. Svo er hér frábært samfélag, allt þetta skiptir framleiðslufyrirtæki miklu máli. Auðvitað er alveg hægt að framleiða vöru sem þessa erlendis en við viljum miklu frekar gera það hér heima.“

Viðar Þorkelsson: „Við höfum fundið fyrir dyggum stuðningi við verkefnið í nærsamfélaginu hjá heimafólki, fjárfestum og öðrum samstarfsaðilum. Við væntumþess að Foodsmart Nordic verði ein af burðarstoðum verðmætasköpunar á svæðinu til frambúðar, auki fjölbreytni í atvinnulífinu og samkeppnishæfni um búsetu. Bein störf á svæðinu í tengslum við reksturinn verða um 15 á næstu 2-3 árum. Þá eru ótalin afleidd störf tengd núverandi uppbyggingu og svo viðskiptum til framtíðar, auk þess sem uppbygging nýsköpunarstarfsemi hefur jafnan hvetjandi áhrif á nærumhverfið.“

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir