Einstakur leikur fyrir Einstök börn í Síkinu á föstudaginn
Tindastóll fær ÍA í heimsókn föstudaginn 5. desember og hefjast leikar klukkan 19:15. Leikurinn er þó ekki alveg hefðbundinn deildarleikur heldur er um svokallaðan Bangsaleik að ræða. Bangsaleikur virkar þannig að þegar Tindastóll skorar fyrstu þriggja stiga körfuna í leiknum þá taka áhorfendur sig til og henda böngsum inn á völlinn sem leikmenn safna svo saman og færa Einstökum börnum.
„Hugmyndin er komin frá Bakken Bears í Danmörku þar sem spilaður er sérstakur góðgerðarleikur. Eftir leik í Síkinu munu leikmenn afhenda einstökum börnum bangsa og fara síðan til Akureyrar allir saman á laugardag og heimsækja þau börn sem ekki komast í Síkið. Fólk getur komið með nýja bangsa með sér eða keypt á leiknum til styrktar Einstökum börnum,“ segir Dagur formaður.
Einstök börn er stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni. Félagið var stofnað 13.mars 1997 af foreldrum nokkurra barna og félagið hefur stækkað ört og eru hátt í 800 fjölskyldur í félaginu.
Oft hafa verið einstakar upplifanir í Síkinu fram að þessu en ef einhvern tímann hefur verið ástæða til að mæta og hafa með sér bangsa þá er það núna. Því stærra bangsaregn, því flottara verður það. Tekið skal fram að bansinn sem gefa á áfram þarf að vera nýr. Á föstudaginn mætum við í Síkið fyrir Einstök börn og Tindastól.
HÉR getið þið séð hvaðan hugmyndin er komin >
