Elísa Bríet valin í U15 landsliðshóp Íslands

Elísa Bríet á fullri ferð. MYND: DAVÍÐ MÁR
Elísa Bríet á fullri ferð. MYND: DAVÍÐ MÁR

Í dag kom tilkynnti KSÍ (Knattspyrnusamband Íslands) hverjir skipa hóp U15 kvenna fyrir UEFA Development mótið sem fram fer í Póllandi dagana 2.-9. október. Þjálfari liðsins er Ólafur Ingi Skúlason og hann valdi 20 leikmenn til þátttöku fyrir Íslands hönd. Ein stúlknanna í hópnum er Elísa Bríet Björnsdóttir frá Skagaströnd , alin upp hjá Umf. Fram en skipti yfir í Tindastól síðasta vetur.

Hún lék með sameinuðu liði Tindastóls/Hvatar/Kormáks í 4. flokki í sumar þar sem hún var lykilleikmaður en liðið komst í undanúrslit á Íslandsmótinu. „Elísa er mjög öflugur miðjumaður sem getur notað bæði hægri og vinsti fótinn og hefur gríðarlega góða tæknilega getu,“ segir Þórarinn (Tóti) Sveinsson, yfirþjálfari yngri flokka hjá Tindastóli. Hann segir jafnframt að Elísa Bríet, sem er aðeins 14 ára (fædd 2008), hafi spilað leiki með 2. og 3. flokki í sumar auk þess sem hún spilaði með meistaraflokki í tveimur leikjum í deildarbikar og einn leik í Kjarnafæðimótinu og skoraði eitt mark þar.

Þess má geta að Elísa Bríet er eina stúlkan af Norðurlandi í landsliðshópnum. Það verður spennandi að fylgjast með afrekum hennar í framtíðinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir