Fólk hvatt til að útbúa mannlegar jólakúlur fyrir hátíðirnar

Átta greindust með kórónuveiruna innanlands sl. sólarhring, allir staðsettir á höfuðborgarsvæðinu utan eins, fimm af þeim voru ekki í sóttkví. Alls eru 187 í einangrun, 716 í sóttkví, 41 á sjúkrahúsi, tveir á gjörgæslu á öndunarvél samkvæmt tölum á Covid.is. Á Norðurlandi vestra er enn tómur listi þar sem enginn er skráður í einangrun né í sóttkví.

Á upplýsingafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í morgun kom fram að nú væri hægt að nálgast ráðleggingar um það hvernig heppilegt væri að haga málum yfir hátíðarnar. Þar benti Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, fólki á að búa sér til nokkurs konar jólakúlu og raða í hana því fólki sem hver og einn ætlar að hitta yfir hátíðarnar. Miða þarf samt við tíu manns sem er sá fjöldi sem fjöldatakmörkun yfirvalda notar nú sem meginreglu.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hvatti fólk til að forðast alla hópamyndun fyrir jól og aðspurður um tillögur hans til heilbrigðisráðherra vildi hann lítið segja nema að ekki væri rými til almennra slakana sem stendur. Hvort til greina kæmi að beita svæðisbundnum aðgerðum fyrir jól taldi Þórólfur svo geta verið.

Um heimboð og veitingar um jól og áramót segir í leiðbeiningum sem hægt er að nálgast á Coivid.is:
Látum gesti vita um boðið með góðum fyrirvara svo þeir hafi tækifæri til að fara varlega dagana fyrir boðið.
Fylgjumst með þróun faraldursins.
Virðum fjöldatakmarkanir og tryggjum nándarmörk og einstaklingsbundnar smitvarnir.
Forðumst samskotsboð („pálínuboð") og hlaðborð.
Geymum handabönd, faðmlög og kossa til betri tíma.
Hugum að loftræstingu og loftum út á meðan á boðinu stendur.
Bjóðum upp á grímur ef gestir kjósa, þvoum hendur og sprittum okkur reglulega.
Takmörkum sameiginlega snertifleti og þrífum þá oft og reglulega.
Notum grímu og þvoum okkur reglulega um hendur á meðan við útbúum matinn, berum hann fram og göngum frá.
Takmörkum fjölda fólks í eldhúsinu eða þar sem maturinn er útbúinn og gengið er frá eftir matinn.
Takmörkum notkun á sameiginlegum áhöldum, svo sem tertuhnífum, kaffikönnum, mjólkurkönnum og svo framvegis.
Þvoum allt tau eftir hvert boð, svo sem dúka og tauservíettur.
Forðumst söng og hávært tal, sérstaklega innandyra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir