Formaður ungra Framsóknarmanna stefnir á þing.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir. Aðsend mynd.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir. Aðsend mynd.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, formaður Sambands ungra Framsóknarmanna gefur kost á sér í 3. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar 2021. Lilja hefur verið formaður Sambands ungra Framsóknarmanna síðan 2018 og er varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. 

Í tilkynningu sem Lilja sendi frá sér segist hún hafa innilegan áhuga á að taka þátt í stjórnmálum og vilja bjóða fram krafta sína til þess að bæta samfélag okkar næstu árin. „Þau mál sem brenna helst á mér eru jafnt aðgengi að námi, tækifæri fólks til atvinnu alls staðar á landinu og umhverfismál. Ég hef verið ötull talsmaður fjarnáms og starfa án staðsetningar. Ég vil að börn og ungmenni hafi öruggt aðgengi að íþróttum, tómstundum og félagsstörfum og að börn eigi möguleika á leikskólavist frá eins árs aldri. Við eigum einnig að halda áfram að styðja við námsmenn og gefa þeim tækifæri á að sækja sér nám á sínum forsendum," segir Lilja. „Þegar ég lít á stóru myndina þá vil ég að landið sé sem sjálfbærast. Við eigum að gera eins mikið og við getum til þess að vera með næga matvælaframleiðslu innanlands sem er einnig í hæsta gæðaflokki. Við ættum að stefna á að farartæki séu búin þeim búnaði að hægt sé að nýta innlenda orkugjafa."

Lilja Rannveig er fædd 1996, stundar námi við Háskóla Íslands og er búsett í Bakkakoti í Borgarbyggð ásamt fjölskyldu sinni. Unnusti hennar er Ólafur Daði Birgisson og saman eiga þau tvö börn. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir