Frumvarpið gerir sem fyrr ráð fyrir stofnun þjóðgarðs án samþykkis hlutaðeigandi sveitarfélaga

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps leggst gegn samþykkt frumvarps um Hálendisþjóðgarð. Frumvarpið var lagt fram til kynningar á fundi sveitarstjórnar þann 17. desember síðastliðinn. Í bókun sveitarstjórnar sem samþykkt var með fimm atkvæðum en tveir sátu hjá, segir m.a. að sem fyrr geri frumvarpið ráð fyrir stofnun þjóðgarðs án samþykkis hlutaðeigandi sveitarfélaga.

Bókun sveitarstjórnar er svohljóðandi:

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps leggst gegn samþykkt frumvarpsins. Um afstöðu sveitarfélagsins er vísað til fyrri athugasemda sveitarfélagsins vegna málsins, síðast með sameiginlegri umsögn fjögurra sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, við frumvarpsdrögin í janúar 2020. Frumvarpið gerir sem fyrr ráð fyrir stofnun þjóðgarðs án samþykkis hlutaðeigandi sveitarfélaga. Tillögur um afmörkun þjóðgarðs hvíla ekki á sérstökum röksemdum um náttúrufar heldur birtast sem krafa um yfirráð á svæðum þar sem þegar er gætt að hagsmunum náttúruverndar með Landskipulagi samþykktu af Alþingi, aðalskipulagi, eigandastefnu forsæsætisráðuneytis um þjóðlendur o.fl. Í undirbúningi málsins hefur ekki verið hugað að kostum núverandi umsjónar með þjóðlendum, sem liggur í raun hjá Alþingi, forsætisráðuneyti og sveitarfélögum. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að fylgja eftir afstöðu sveitarstjórnar til málsins við Alþingi og samþykkir fyrirliggjandi drög að umsögn um málið, þar sem fram kemur umfjöllun um nokkur meginatriði auki fyrri athugsemda við málið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir