Fuglaskoðunarhúsið Kristall á Spákonufellshöfða formlega opnað í gær

Frá formlegri opnun í gær. MYND AF FB_SÍÐU HETJA HAFSINS
Frá formlegri opnun í gær. MYND AF FB_SÍÐU HETJA HAFSINS

Í gær var formleg opnun á fuglaskoðunarhúsinu á Spákonufellshöfða en það var fyrsti dagskrárliður sjómannadagshelgarinnar, Hetjur hafsins, á Skagaströnd. Í vetur var auglýst eftir nöfnum á húsið og var það nafnið Kristall sem hitti í mark. Framkvæmdir á Spákonufellshöfða hófust síðastliðið haust og nokkuð síðan húsið var tilbúið til notkunar.

Verkefnið hlaut ríflega 11 milljón króna styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða 2023. Húsið er hannað af Auði Hreiðarsdóttur arkitekt. Frekari merkingar um aðkomu að húsinu verða settar upp í sumar.

Reiknað var með að æstustu fulltrúar fuglanna, krían, léti sjá sig á höfðanum enda hennar tími kominn. Var íbúum því bent á að gott væri að taka með sér prik eða golfkylfu til að verjast ágangi hins fima fugls.

Dagskrá Hetja hafsins heldur áfram seinni partinn í dag þegar Sjómannadagshlaupið fer fram og samhliða því verður froðurennibraut. Þá verður fiskisýning á Fiskmarkaðinum og klukkan átta í kvöld verða tónleikar í Bjarnabúð. Þar mæta dömusveitin Skandall, Birkir, Margrét og Snorri, Huginn, Úlfur Úlfur og Herbert Guðmundsson. Reiknað er með að tónleikum ljúki um tíu og í framhaldi af því verður Músík Bingó Fanneyjar á Harbour. Skagstrendingar halda áfram að skemmta sér og gestum sínum á morgun, laugardag, en þá verður m.a. farið í skemmtisiglingu og skemmtun verður á bryggjunni sem hefst kl. 13:00. Áfram heldur svo fjörið á sunnudag.

Hér er hlekkur á eldri frétt um fuglaskoðunarhúsið og hér má sjá myndir frá formlegrui opnun þess >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir