Heimilt að fjarlægja númerslausar bifreiðar og lausamuni

Fjarlægja má lausamuni og bifreiðar á kostnað eiganda að undangenginni viðvörun. Mynd: Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra.
Fjarlægja má lausamuni og bifreiðar á kostnað eiganda að undangenginni viðvörun. Mynd: Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra.

Á fundi Heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra sem haldinn var sl. þriðjudag, 25. júní, voru samþykktar verklagsreglur Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra við að fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti á almannafæri að undangenginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum sbr. reglugerð 941/2002. Er Heilbrigðiseftirlitinu ætlað að vinna að verkefninu í samráði og samvinnu við sveitarfélög á starfssvæðinu.

Samkvæmt reglunum er heilbrigðiseftirlitinu heimilt að láta fjarlægja lausamuni og bifreiðar á kostnað eiganda að undangenginni viðvörun þar að lútandi og koma þeim í vörslu viðkomandi sveitarfélags.

Reglurnar eru svohljóðandi:

1. Aðvörunarmiði er límdur á viðkomandi bifreið af heilbrigðisfulltrúa og ljósmynd tekin til staðfestingar.

2. Veittur er að jafnaði fjórtán daga frestur til þess að fjarlægja bifreiðina en hægt er að fá aukin frest hafi eigandi samband við Heilbrigðiseftirlitið.

3. Hirði eigandi/forráðamaður ekki um ofangreinda aðvörun innan gefins frests sendir Heilbrigðiseftirlitið sveitarfélaginu eða verktaka á þess vegum lista yfir þá bíla sem fjarlægja á. Viðkomandi sveitarfélagið tekur bílana í sína vörslu.

4. Sveitarfélag eða verktaki á vegum þess, sem fjarlægir bíl skal skrá niður hvaða dag bifreiðin var fjarlægð og taka jafnframt ljósmynd af henni.

5. Eftir að bifreið er fjarlægð er hún geymd í átta vikur og getur eigandi leyst hana út með greiðslu áfallins kostnaðar, sbr. gjaldskrá viðkomandi sveitarfélags. Ef bifreiðar/lausamunar er ekki vitjað innan átta vikna er heimilt að farga henni.

6. Eigandi bifreiðar skal greiða þann kostnað sem af framkvæmdinni hlýst og skulu sveitarfélög setja sér gjaldskrá til innheimtu umrædds kostnaðar. Athuga þarf að bílar í vörslu eru á ábyrgð sveitarfélags.

7. Sveitarfélög skulu hafa mannhelda girðingu í kringum geymslusvæði bifreiða og lausamuna sem hafa verið fjarlægð á grundvelli reglugerðarinnar og skal svæðið vera mannhelt og læst. Kæra skal  skemmdarverk sem kunna að verða unnin á bifreiðum sem eru í vörslu sveitarfélaga til lögreglu sem innbrot. Ef tryggilega er staðið að vörslu, kemur það í veg fyrir að  sveitarfélög verði gerð ábyrg fyrir skemmdarverkum sem kunna að verða unnin á númerslausum bílum á geymslusvæði sveitarfélaga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir