Hlutur tónlistar í menningarhúsi á Sauðárkróki og nýtni hússins | Aðsend grein

Svona sjá arktitektar fyrir sér kvöldstemningu við nýtt menningarhús á Sauðárkróki.   MYND: ARKÍS ARKITEKTAR
Svona sjá arktitektar fyrir sér kvöldstemningu við nýtt menningarhús á Sauðárkróki. MYND: ARKÍS ARKITEKTAR

Boðuð hefur verið bygging húss skagfirskrar lista- og safnastarfsemi á Sauðárkróki sem á að vera tilbúin á næstu árum. Það er spennandi verkefni og mun efla samfélagið á Sauðárkróki og víðar. Varðandi starfsemi hússins hefur verið tekið fram að það verði leik- og safnahús en ekki aðstaða til tónlistarflutnings og að Miðgarður í Varmahlíð hafi það hlutverk.

Miðgarður er góður fyrir stærri tónlistarviðburði, tekur tæpl. 400 manns og er um 20 mín. keyrsla frá Sauðárkróki eins og alkunna er. Miðgarður hefur sem sagt stóran sal miðað við fjölda fólks í sveitarfélaginu Skagafirði og er í töluverðri fjarlægð frá langstærsta byggðakjarna þess. Það er því mjög æskilegt að staðsettur verði á Sauðárkróki u.þ.b. 180-200 manna salur með góðan hljómburð til tónleikahalds.

Tónlistarskólinn hefur mjög slæma aðstöðu í Árskóla ekki síst hvað samspil varðar þar sem reynt hefur verið að halda nemendatónleika í mötuneyti nemenda en það er hannað með hljóðdempun í huga og hljómburður því afleitur. Núna kenna kennarar þar í smá-herbergjum og kompum sem eru ekki kennslunni, skólanum eða sveitarfélaginu til framdráttar. Því væri mjög ákjósanlegt að Tónlistarskólinn hefði aðstöðu í nýja menningarhús-inu og mikil þörf á að efla starfsemi hans í þeirri miklu músíkhefð sem tengd er Skagafirði. Afhverju ekki að nýta byggingu menningarhússí Skagafirði sem lyftistöng fyrir tónlist og tónlistarkennslu sem sannarlega er þörf fyrir?

Benda má á að mjög góð reynsla er af samnýtingu menningarhússins Hofs og Tónlistarskólans á Akureyri. Stöðugt líf er í húsinu þar sem nemendur koma með hljóðfæri sín alla vikuna og fá kennslu og iðka samspil. Auðvitað er gott að héraðsbókasafnið sé í menningarhúsi Skagafjarðar en skv. skýrslum frá bókasöfnum hafa útlán þeirra dregist mjög saman undanfarna áratugi. Enda viðbúið með aukningu raf- og hljóðbóka að svo verði áfram, þannig að beinni starf-semi bókasafna fylgir ekki mikið líf í framtíðinni.

Það skiptir afar miklu máli að húsið nýtist sem best fyrir samfélagið í Skagafirði, að sem flestir vilji heimsækja það eða eigi þangað erindi.Og eins og ávalt að farið sé vel með opinbert fé og það nýtt sem allra best.Nú þegar hönnun þessa mikilvæga húss fyrir framtíð sveitarfélagsins stend-ur yfir er aðkallandi að tekiðsé tillit til ofangreindra sjónarmiða.Það ætti hikstalaust að hafa íbúafund um þetta stóra mál.

Ívar Aðalsteinsson
Rögnvaldur Valbergsson
Guðbrandur Guðbrandsson
Einar Þorvaldsson
Hjalti Árnason

Fleiri fréttir