Bókasöfn án framtíðar | Kristín S. Einarsdóttir skrifar
Í 43. tölublaði Feykis sl. miðvikudag birtist grein eftir fimmmenninga sem lýsa þar yfir vonbrigðum sínum með að ekki skuli gert ráð fyrir tónlistarsal og tónlistarkennslu í nýju Menningarhúsi sem áformað er að byggt verði við Safnahús Skagfirðinga við Faxatorg. Síðan hafa fleiri komið fram á ritvöllinn af sama tilefni. Á því hef ég ákveðinn skilning og ber mikla virðingu fyrir framlagi greinarritara og alls tónlistarfólks til skagfirskrar menningar. Jafnvel þótt mér sé sjálfri frámunað að halda lagi eða leika á hljóðfæri hef ég ánægju af tónlist og fer oft á tónleika. Hins vegar olli mér vonbrigðum að þeir fimmmenningarnir skyldu nota tækifærið til að kveða upp hálfgerðan dauðadóm yfir starfsemi bókasafna.
Nú kemur ekki fram nákvæmlega hvaða skýrslur frá bókasöfnum þeir félagar vitna í þegar þeir tala um gríðarlegan samdrátt undanfarna áratugi, enda er heimilda ekki getið. En ég vil endilega benda þeim og öðrum áhugasömum íbúum á ársskýrslu Héraðsbókasafns Skagfirðinga fyrir síðasta starfsár, sem liggur á heimasíðu sveitarfélagsins síðan í mars sl. Þar kemur m.a. fram að tæplega átta þúsund gestir heimsóttu safnið á Sauðárkróki á síðasta ári, sem var 13% aukning frá árinu á undan. Úr því að haft var fyrir að „gúggla“ eða spyrja gervigreindina um aðsókn að bókasöfnum hefði verið tilvalið að kynna sér opinber gögn Héraðsbókasafns Skagfirðinga eða jafnvel kíkja í heimsókn á safnið. Við þetta má bæta að í október sl. komu 800 gestir á safnið, sem er mesti gestafjöldi sem verið hefur síðan í febrúar 2024. Þetta jafngildir því að ríflega 40 gestir hafi heimsótt bókasafnið daglega þá 22 virku daga það var opið.
Eftir áramót stendur til að hefja opnun á laugardögum og reikna ég með að heimsóknum fjölgi enn frekar við það. Því get ég engan veginn tekið undir orð þeirra fimmmenninga að „beinni starfsemi bókasafna fylgir ekki mikið líf í framtíðinni.“ Ég er hins vegar hjartanlega sammála þeim orðum þeirra að „það skiptir afar miklu máli að húsið nýtist sem best fyrir samfélagið í Skagafirði, að sem flestir vilji heimsækja það eða eigi þangað erindi. Og eins og ávallt að farið sér vel með opinbert fé og það nýtt sem allra best.“ Og sannfærð er ég um að starfsemi bókasafnsins geti átt þar hlut að máli. Þegar þetta er ritað hef ég nýlokið fimmtán tíma vinnudegi þar sem þrír viðburðir, sem rúmlega 100 gestir sóttu, fóru fram í Safnahúsinu.
Aðsókn og nýjungar hjá Héraðsbókasafni Skagfirðinga
Þann 1. júlí 2023 tók við góðu búi frá Þórdísi Friðbjörnsdóttur, sem veitt hafði bókasafninu forstöðu í 16 ár. Síðan hefur eitt af mínum helstu stefnumálum í starfseminni verið að fjölga gestum safnsins og Safnahússins, en í starfi mínu felst m.a. að veita húsinu forstöðu. Ég er svo heppin að hafa á að skipa einstaklega traustu, áhugasömu og góðu starfsfólki sem hefur unnið með mér í þéttu teymi. Kappkostum við að veita ávallt góða þjónustu, auka viðburðahald í húsinu og hafa góða yfirsýn yfir safnkostinn, þannig að hann sé ávallt vel skráður, snyrtilegur og aðgengilegur.
Vissulega höfum við ekki náð öllum okkar markmiðum og sum eru þess eðlis að þeim lýkur aldrei, enda gaf ég mér 3-5 ár til þess. En ég leyfi mér að fullyrða að viðburðahald í húsinu hefur stóraukist, þjónustan er áfram góð og notkun hússins (sem einnig hýsir Héraðsskjalasafn Skagfirðinga og Sögufélag Skagfirðinga og eru gestakomur þagaðn ekki inn í áðurnefndum tölum) hefur aukist. Í áðurnefndri ársskýrslu er einnig að finna útlánatölur, sem þó segja aldrei alla söguna, því margir koma til að lesa tímarit, vinna í tölvunni sinni, hitta annað fólk eða lesa og afla sér upplýsinga.
Sem dæmi má nefna að í október síðastliðnum kom rithöfundurinn Benný Sif Ísleifsdóttir í heimsókn og las upp úr bókum sínum, þjóðfræðingurinn Dagrún Ósk Jónsdóttir flutti fyrirlestur og opnaði spjaldasýningu um drauga og draugasögur, hátt í 70 manns hlýddu a á upplestur leikara úr Leikfélagi Sauðárkróks á og þegar þetta er ritað höfum við nýlokið við að ganga frá eftir árlegt rithöfundarkvöld sem um 50 gestir sóttu.
Meðal ýmissa nýjunga sem innleiddar hafa verið á safninu síðastliðin rúm tvö ár eru útlán á púslum, borðspilum og bangsapokum, vikulegar lestrarstundir, aukinn sýnileiki, m.a. á samfélagsmiðlum, uppsetning gestatölvu og upplýsingaskjás, útskipting á hillubúnaði og svo mætti áfram telja. Jafnframt hefur bókasafnið t.d. tekið þátt í samfélagslegum hugsjónum eins og mikilvægi þess að endurnýta og deila. Enda má segja að bókasöfn byggi starfsemi sína á hinu svokallaða deilihagkerfi.
Breytt starfsemi bókasafna
Meðal okkar sem störfum á bókasöfnum er það þó alls ekki svo að við verðum ekki vör við aukningu raf- og hljóðbóka. Raunar lánum við út hljóðbækur og lánþegar fá aðgang að rafbókasafni. En við verðum líka vör við að margir eru aftur farnir að kjósa áþreifanlegar bækur og annan safnkost sem við bjóðum upp á. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi læsis í nútímasamfélagi og reikna ég með að greinarriturum sé vel kunnugt um þá umræðu.
Í starfi mínu hef ég heimsótt fjölmörg bókasöfn, innanlands sem erlendis. Í öllum þessum söfnum er að finna iðandi mannlíf sem ber vott um hugmyndaauðgi og útsjónarsemi. Samstarf milli bókasafna í landinu er töluvert, sem og samstarf þeirra fjögurra safna í Skagafirði sem munu með nýju menningarhúsi komast undir eitt þak. Það er sameiginleg sýn okkar sem veitum söfnunum forstöðu að þarna verði um mikil samlegðaráhrif að ræða, sem muni beint og óbeint leiða af sér nýjar afurðir. Hér má svo nefna að starfsemi bókasafna er lögbundið hlutverk sveitarfélaga, skv. lögum nr. 150 frá 2012 og seinni tíma breytingum. Tónlistarskólar munu hins vegar ekki heyra undir lögbundið hlutverk sveitarfélaga, þó mikilvægir séu.
Þriðja rýmið
Ég leyfi mér að vitna í grein sem kollegi minn, Dögg Sigmarsdóttir hjá Borgarbókasafni, ritar á vefinn bókasafnid.is og segir m.a.:
„Mörg sem starfa á bókasöfnum kannast við hugmyndir um þriðja rýmið, staðinn sem er hvorki heimili þitt, vinnustaður né skóli...Bókasöfn séu einn af grundvallar félagslegum innviðum sem lýðræðissamfélög þarfnast. Fjöldi bókasafna um allan heim hefur endurskilgreint sig og farið í endurbætur sem gera þeim kleift að sinna þessu hlutverki betur...Til stendur að endurgera Borgarbókasafnið í Grófinni í sama tilgangi - að skapa stað þar sem hægt er að vera meðal jafningja, þar sem fólk upplifir að það tilheyri samfélaginu og fái tækifæri til að taka virkan þátt í mótun þess. Það er engin ein uppskrift til fyrir slík rými því samfélög eru ólík og þarfirnar fjölbreyttar. Mótun slíkra staða verður því að taka mið af félagslegum þáttum og samsetningu hvers samfélags fyrir sig, ef þeir eiga að hafa vægi og tilgang í sínu nærsamfélagi.“
Forsaga málsins
En aðeins til upprifjunar, um menningarhús á Sauðárkróki og forsögu þess. Árið 2005 undirritaði þáverandi menntamálaráðherra, ásamt oddvitum sveitarfélaganna tveggja sem þá voru í Skagafirði, samkomulag um uppbyggingu menningarhúss í Skagafirði. Grundvöllur þessa samkomulags var ákvörðun ríkisstjórnar Íslands frá árinu 1999 um að veita stofnstyrki til uppbyggingar menningarhúsa utan höfuðborgarsvæðisins. Var það byggt á niðurstöðum samstarfshóps skipuðum fulltrúum ráðuneytisins og sveitarfélaganna.
Annars vegar var gerð tillaga um endurbætur á félagsheimilinu Miðgarði, þar sem áhersla yrði lögð á tónlistarflutning, stærri hátíðir og ráðstefnuhald. Var endurbætt Menningarhús, Miðgarður, vígt í Sæluviku Skagfirðinga 2009. Hins vegar var gerð tillaga um að byggt yrði við núverandi Safnahús Skagfirðinga á Sauðárkróki og að þar yrði menningarmiðstöð með áherslu á fræðastörf og sýningar, sem hýsi m.a. sýningarsal, bókasafn, listasafn og skjalasafn. Vegna efnahagserfiðleika var þessum síðari áfanga slegið á frest um nokkurra ára skeið að ósk ráðuneytisins. Með bréfi frá ráðuneytinu, dags. 27. desember 2016, var tilkynnt um skipan fulltrúa ráðuneytisins í þarfagreiningarnefnd um byggingu menningarhúss á Sauðárkróki, og óskað eftir tilnefningu frá Sveitarfélaginu Skagafirði. Byggðarráð skipaði fulltrúa sveitarfélagsins á fundi 26. janúar árið eftir og vann hópurinn eftir þeirri meginforsendu að haldið væri áfram með þær hugmyndirnar frá árinu 2005, þ.e.:
- Að byggt sé við Safnahúsið og stutt sé við þá starfsemi sem er þar fyrir.
- Að menningarhúsið sinni öðrum þáttum menningar en Menningarhúsið Miðgarður gerir í dag.
- Að við hönnun endurbóta og viðbyggingar sé uppreiknuð fjárhæð til menningarhúss á Sauðárkróki, í gildandi samkomulagi ríkisins og sveitarfélaganna í Skagafirði, höfð til viðmiðunar fjárhagsþaks framkvæmda.
Fyrst og fremst er húsinu ætlað að ýta undir fjölbreytileika menningarlífs í Skagafirði. Horft er á það sem meginmarkmið að menningarhúsið:
- Verði lifandi vettvangur sviðslista í Skagafirði.
- Búi yfir aðstöðu til að halda metnaðarfullar sýningar, s.s. myndlistarsýningar, ljósmyndasýningar, sýningar á höggmyndalist o.s.frv.
- Hlúi vel að þeim menningararfi sem þegar er hér til staðar.
- Sé miðstöð rannsókna á skagfirskum menningararfi.
- Bæti aðstöðu almennings til að njóta fjölbreyttrar menningar og menningararfs, sem og njóta samvista við aðra íbúa svæðisins.
Því til viðbótar skyldi húsið vera hannað með það í huga að hægt væri að nýta það undir málþing og ráðstefnur en það myndi treysta rekstrargrundvöll hússins. Þess má geta að í þessari þarfagreiningu eru bókasafni ætlaðir 373 fermetrar í hinu nýja menningarhúsi, nákvæmlega jafn margir og safnið hefur til umráða í dag.
Að lokum
Persónulega er ég afar hlynt íbúalýðræði og að raddir sem flestra heyrist. Sjálf tek ég virkan þátt í slíku og sat í sveitarstjórn og fjölda nefnda í Strandabyggð meðan ég bjó þar. En umræða þar sem vega þarf að einu til að gefa öðru rými finnst mér hvimleið og í þessu tilviki óverðskulduð. Starfsemi bókasafnins verður eki jarðsungin á minni vakt, jafnvel þótt góðir undirleikarar fáist við útförina. Bíð ég fimmmenningana góðu sem stungu niður penna í síðasta tölublaði Feykis, sem og Skagfirðinga alla, hjartanlega velkomna í heimsókn í Héraðsbókasafn Skagfirðinga.
Kristín Sigurrós Einarsdóttir,
forstöðumaður Héraðsbókasafns Skagfirðinga
- - - -
Heimildir:
Heimasíða Héraðsbókasafnsins >
Ársskýrsla Héraðsbókasafnsins >
Grein Daggar Sigmarsdóttur á Bókasafnið.is: >
Meistararitgerð Jónu Símoníu Bjarnadóttur um framtíðarsýn bókasafna >
