Lásu 729 bækur í Lestrarátaki Ævars vísindamanns

Krakkarnir í 2. bekk með viðurkenningu sína en þau voru bekkurinn sem las flestar bækur. Mynd: hofdaskoli.wixsite.com.
Krakkarnir í 2. bekk með viðurkenningu sína en þau voru bekkurinn sem las flestar bækur. Mynd: hofdaskoli.wixsite.com.

Lestrarátaki Ævars vísindamanns lauk um síðustu mánaðamót og hafði þá staðið frá 1. janúar. Þetta er í fjórða skipti sem Ævar efnir til þessa átaks og í fyrstu þrjú skiptin lásu íslenskir krakkar meira en 177 þúsund bækur. Krakkarnir skila inn lestrarmiðum með nöfnum bókanna sem þeir lesa og að átakinu loknu er dregið úr innsendum miðum og fá fimm krakkar í verðlaun að vera persónur í æsispennandi ofurhetjubók eftir Ævar sem kemur út í maí.

Í Höfðaskóla á Skagaströnd var gert aðeins meira úr átakinu í því skyni að hvetja enn frekar til lestrar. Þannig fengu allir þeir sem tóku þátt í átakinu viðurkenningarskjal og nafn sitt í pott þar sem dregnir voru út nokkrir vinningar, pizzur frá Bjarmanesi og hamborgararar og franskar frá Olís. Einnig fékk sá nemandi hvers bekkjar sem flestar bækur las, bók í viðurkenningarskyni og Karen Líf í 7. bekk, sem las 129 bækur eða fleiri en nokkur annar nemandi skólans, fékk glaðning frá Olís. Þá fékk 2. bekkur bók í verðlaun fyrir að vera bekkurinn sem mest las eða 225 bækur samtals.

Þetta er þriðja árið í röð sem skólinn tekur þátt í lestrarátakinu en í fyrsta sinn sem allur skólinn er með þar sem átakið var aðeins ætlað 1.-7. bekk í fyrri skiptin.

Á tímabilinu lásu nemendur skólans lásu hvorki meira né minna en 729 bækur. Vel gert hjá krökkunum og sannarlega flott framtak hjá skólanum.

Þessir einstaklingar lásu flestar bækur: 

Í 1. bekk las Sæþór Daði flestar bækur og fékk Risabókina í viðurkenningarskyni.
Í 2. bekk las Aníta Ýr flestar bækur og fékk bókina Benedikt búálfur - runni risi.
Í 3. bekk var það Andri Snær sem las flestar bækur. Hann fékk bókina Skúli verður ríkur í hvelli.
Í 4. bekk las Steinunn Kristín flestar bækur. Hún fékk Bíttu á jaxlinn, Binna mín.
Í 5. bekk var það Mathis sem las flestar bækur og fékk Kidda klaufa.
Í 6. bekk las Sóley Sif mest. Bókin sem hún fékk heitir Harry Potter - bölvun barnsins.
Í 7. bekk var það Karen Líf sem las flestar bækur og fékk Harry Potter - bölvun barnsins.
Í 8. bekk var Mikael Garðar með flestar bækur. Bókin sem hann fékk heitir Leyndardómur ljónsins.
Í 9. bekk fékk Ingólfur Eðvald bókina Koparborgin í viðurkenningarskyni. Þarr lásu þrír nemendur, þeir Ingólfur, Magnús Sólberg og Ólafur, jafn margar
bækur og þurfti því að draga á milli þeirra.
Í 10. bekk var það Dagný Dís sem las flestar bækur og fékk Náðarstund. 

Á heimasíðu Höfðaskóla má sjá fleiri myndir frá afhendingu viðurkenninganna.

 

Fleiri fréttir