NFNV frumsýnir söngleikinn Grease á morgun

Leikhópur Nemendafélags Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra frumsýnir nk.föstudag hinn sívinsæla söngleik Grease í  leikstjórn Péturs Guðjónssonar. Með aðalhlutverk fara þau Róbert Smári Gunnarsson, sem leikur Danny Zuko og Valdís Valbjörnsdóttir sem leikur Sandy.

Leikritið fjallar um ástfangna unglinga árið 1959. Vandræðaunglingurinn Danny Zuko og góða stelpan Sandy Dumbrowski urðu ástfangin í sumarfríinu en héldu að þau myndu ekki hittast aftur. Það sem þau vita ekki, er að þau eru bæði í Rydell-skóla og þegar þau hittast aftur að sumarfríi loknu er allt breytt og raunveruleikinn tekinn við.

Róbert Smári Gunnarsson, sem leikur Danny Zuko og Valdís Valbjörnsdóttir sem leikur Sandy

Dagmar Ólína Gunnlaugsdóttir, skemmtanastjóri NFNV, segir að 44 einstaklingar komi að uppsetningunni og eru þá allir taldir með, leikarar, dansarar, tæknimenn, sminkur, sviðsmenn, leikstjóri, ljósahönnuður, smiðir og fólk í miðasölu.

Hvernig hefur æfingatímabilið gengið?
- Það hefur gengið virkilega vel, Þetta hefur verið mikil keyrsla og vinna en samt einnig virkilega skemmtilegt! Öllum kom vel saman og aldrei nein leiðindi. Mikið hlegið. Það var alveg greinilegt að allir ætluðu að gefa allt í þetta strax í byrjun enda er þetta þvílíkt hæfileikaríkur hópur. En þótt mikil alvara hafi verið í þessu öllu þá er alltaf búið að vera stutt í grínið, gamanið og fíflaganginn, enda er það aðalmálið að hafa gaman!

Hvað geturðu sagt mér um leikstjórann?
-Leikstjórinn í ár er Pétur Guðjónsson, lærður leikstjóri frá Akureyri. Hann vinnur hjá Verkmenntaskólanum á Akureyri. Hann hefur einnig verið leikstjóri í leikritum VMA síðustu ár. Virkilega skemmtilegur karl sem öllum líkar vel við. Alltaf stutt í grínið hjá honum.

Leikarahópurinn.

Hvar og hvernig getur fólk náð í miða?
- Miðapantanir fara fram í síma 455-8070 frá og með miðvikudeginum 14. nóvember. Á virkum dögum er hægt að panta miða frá 15:00 - 17:00 og um helgar frá 11:00 - 14:00.  Einungis er hægt að panta miða á þessum tímum. Miðaverð er 2500kr á mann og eru allar sýningarnar í félagsheimilinu Bifröst.

Sýningatímar eru:
 Föstudagur 16. nóvember: Frumsýning - 20:00
Laugardagur 17. nóvember: Fyrri sýning - 20:00, seinni sýning - 00:00
Sunnudagur 18. nóvember: Fyrri sýning - 16:00, seinni sýning - 20:00
Þriðjudagur 20. nóvember: Sýning fyrir 10. bekkinga - 19:00 - uppseld.
Miðvikudagur 21. nóvember: Sýning 20:00

-Ég hvet alla til að mæta, unga sem aldraða. Þetta er virkilega skemmtileg og drepfyndin sýning, segir Dagmar Ólína.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir