Notkun á bóluefni Pfizer heimiluð hér á landi

Mynd af vef heilbrigðisráðuneytisins.
Mynd af vef heilbrigðisráðuneytisins.

Lyfjastofnun hefur veitt bóluefninu Comirnaty frá BioNTech/Pfizer skilyrt íslenskt markaðsleyfi. Bóluefnið ver einstaklinga gegn COVID-19 og er ætlað til notkunar hjá einstaklingum 16 ára og eldri. Þar með geta bólusetningar gegn COVID-19 hafist hér á landi þegar bóluefnið verður tiltækt. Þetta kemur fram í frétt á vef Lyfjastofnunar.

Í frétt frá heilbrigðisráðuneytinu í gær segir að þátttaka Íslands í samstarfi Evrópuþjóða um kaup á bóluefnum í gegnum samninga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins tryggi Íslandi hlutfallslega sama magn bóluefna og öllum öðrum þjóðum sem taka þátt í samstarfinu. Framkvæmdastjórnin kveður á um hve mikið ríkin fá og er þar alfarið byggt á hlutfallslegri úthlutun miðað við höfðatölu hverrar þjóðar. Þetta á við um bóluefni Pfizer líkt og annarra framleiðenda. Allar þjóðir fá til að byrja með 10.000 skammta. Síðan hefst úthlutun samkvæmt afhendingaráætlun. Eins og áður hefur komið fram hefur Ísland lokið samningum um bóluefni við tvö þeirra fyrirtækja sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er með samninga við, þ.e. Pfizer og Astra Zeneka og tryggja þau Íslandi bóluefni fyrir samtals 200.000 einstaklinga. Þann 23. desember er stefnt að undirritun samnings Íslands um bóluefni Janssen um 235.000 bóluefnaskammta. Þá er enn fremur gert ráð fyrir undirritun samnings við Moderna 31. desember næstkomandi.

Sjá nánar hér á vef heilbrigðisráðuneytisins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir