Ný göngukort komin út

Nýju göngukortin. Mynd: Skagafjordur.is
Nýju göngukortin. Mynd: Skagafjordur.is

Ný göngukort yfir svæðið á milli Skagafjarðar og Austur-Húnavatnssýslu eru nú komin út. Annað kortið nær yfir Skagann á milli Húnaflóa og Skagafjarðar, hitt yfir svæðið frá Skagafirði til Vatnsdals.

Með kortunum fylgja 93 stuttar leiðarlýsingar á íslensku og ensku, auk umfjöllunar um áhugaverða staði á leiðunum. Eitt aðaleinkenni þessara korta, sem eru í mælikvarðanum 1:100.000, er vandað hæðarlíkan í náttúrulegum litum og myndræn skygging. Auk þess er á kortunum fjöldi örnefna og aðrar gagnlegar upplýsingar.

Sagt er frá útgáfunni á vef Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem gefur kortin út í samvinnu við sveitarfélögin í Austur-Húnavatnssýslu, Félag ferðaþjónustunnar í Skagafirði og Ferðamálafélag Austur-Húnavatnssýslu. Uppbyggingarsjóður Norðurlands vestra og Kaupfélag Skagfirðinga styrktu útgáfu kortanna. Kortagerð annaðist Hans H. Hansen hjá Fixlanda ehf., hönnun og myndvinnslu annaðist Óli Arnar Brynjarsson hjá Nýprent ehf., ensk þýðing var unnin hjá Þekkingarsetrinu á Blönduósi og um prentun sá Prentsmiðjan Oddi í Reykjavík.

Kortin eru komin í dreifingu og verða til sölu víða um land.

Fleiri fréttir