Nýtt veðurkort á Feyki.is í samstarfi við Bliku

Feykir hefur gert samkomulag við veðurspávefinn blika.is, sem Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur gerir út, og birtir veðurspár og -athuganir á Feykir.is. Vefur Bliku var uppfærður og betrumbættur fyrr á þessu ári en hann hefur verið í loftinu frá 2019 og byggir á sömu hugmynd og yr.no þar sem hægt er að velja staðspár fyrir tæplega 10 þúsund staði hér á landi.

Samkvæmt upplýsingum frá Bliku keyrir hún eigið veðurspálíkan (WRF) á sex klst. fresti. Fínkvarðaspáin í 3 km upplausn er til 60 tíma og nýung að nú er keyrð grófari spá í 9 km upplausn næstu 10 daga. Veðurstofa Íslands lætur Bliku í té spáupplýsingar úr sínu líkani (Harmonie), næstu 60 klst. og eftir það til 10 daga úr Evrópska reiknilíkaninu. Veðurstofan reiknar staðspár fyrir tiltölulega fáa staði á Íslandi en eftirlætur það öðrum s.s. eins og Bliku sem túlkar spár Veðurstofunnar niður á hvern stað fyrir sig. Þegar veðurviðvaranir eru gefnar út litast spáin á Bliku á hverjum stað á sjálfvirkan hátt, gul, appelsínugul eða rauð, í takt við útgefnar viðvaranir á Veðurstofunni.

Á Bliku er hægt að leita að hvaða stað sem er á landinu og jafnvel velja hann sinn uppáhalds en þá birtist spá fyrir þann stað framvegis þegar viðkomandi heimsækir Bliku í því tæki sem valið er úr. Samkvæmt veðurkorti dagsins klukkan 9 mældist mesta frost á Blönduósi -13°C en minnst var það á Sauðárkróki -7°C.

Að sögn Einars hefur verið góður stígandi í aðsókn að Bliku allt frá upphafi og segir hann að í aðdraganda óveðurs, og þegar viðvaranir eru í gildi eða slæm færð, eru heimsóknir yfir 10 þúsund. Sama á við á sumrin þegar landinn er á faraldsfæti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir