„Appetite for Destruction umturnaði mér“ / GESTUR GUÐNA

Gestur Guðnason er alinn upp á Króknum en býr nú í Reykjavík og starfar sem tónlistarkennari við Tónlistarskóla Seltjarnarness og Tónsali. Gestur er af árgangi 1975, sonur Valgerðar Einarsdóttur og Guðna Friðrikssonar. Hljóðfæri Gests er gítar en hann segist kunna Bleika pardusinn á píanó og Come As You Are á trommur. „Myndi samt hvorugt sitja með taktmæli,“ segir hann og heldur áfram: „Ég hef þó spilað rafbassa inn á eigin upptökur og líka á hestamannaballi í Húnavatnssýslu. Á það líka til að hefja upp raust mína – flokkast röddin ekki sem hljóðfæri?“

Aðspurður um helstu tónlistarafrekin segir hann: „Ef ég þarf að gera upp á milli margra skemmtilegra verkefna sem ég hef tekið þátt í, held ég að ég yrði að nefna þau tvö sem ég hef lagt mesta vinnu í sjálfur en það eru tvær breiðskífur sem innihalda báðar eingöngu mín lög og texta. Sú fyrri er platan Lykill að skírlífsbelti með Númer Núll, sem ég gaf út árið 2008, og seinni platan Höfuðsynd með Atónal Blús, sem ég gaf út árið 2014.“

Hvaða lag varstu að hlusta á?  Akkúrat áður en í þessum skrifuðu orðum lagið Loop með Lost Performance.

Uppáhalds tónlistartímabil? 1400 – 2016. Ég fýla sem sagt bæði endurreisnartónlist og RnB

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? RnB. Geggjaður hljóðheimur og grúv oft á tíðum.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Klassískt rokk og 80s. Man fyrst eftir að hafa heyrt í The Doors þegar pabbi var að spila líklega Riders on the Storm í bílnum  einhversstaðar milli áfangastaða úti á landi. Ég hef varla verið meira en svona 10 ára og gat alls ekki umborið þessa tónlist. Var hræddur við hana.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Kill 'Em All með Metallica.

Hvaða græjur varstu þá með? Einhverja geislaspilarasamstæðu sem ég fékk í fermingargjöf.

Hvert var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? Fyrsta lagið sem ég man eftir að hafa fýlað í botn var Seinna meir með Start. Dýrkaði bassalínuna í intro og fannst versin flott en var hinsvegar ekkert hrifinn af pre chorusum og chorusum. Man eftir að hafa hlaupið að hátölurunum á leikskólanum þegar þetta lag var spilað í útvarpinu.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn eða fer óstjórnlega í taugarnar á þér? Yellow með Coldplay.

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Euphoria og Sókrates.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Einhvern gamlan og góðan hármetal vellandi af væmni og karlrembu.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Sem minnst. Kannski fuglasöng.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég færi til Egyptalands að horfa á M.I.A. spila fyrir framan pýramída og myndi taka konuna með.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst kominn með bílprófið? Örugglega Guns N' Roses og einhverju álíka.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Jim Morrison, hver hefur ekki viljað vera hann einhvertíman á lífsleiðinni?

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Það er náttúrulega ómögulegt að svara hver sé sú besta en Appetite for Destruction [með Guns N'Roses] er plata sem varð fyrir mér á viðkvæmu tímabili í lífinu og umturnaði mér ef svo má segja.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? Er gamaldags og ekki með playlista ;)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir