Ólafur Guðmundsson fór ungur á sjóinn - Lesblindur, lítill og ræfilslegur

Ólafur Guðmundsson annar stýrimaður á Arnari HU1. Mynd af FB.
Ólafur Guðmundsson annar stýrimaður á Arnari HU1. Mynd af FB.

Ólafur Guðmundsson býr á Sauðárkróki kvæntur Ragnheiði Ólöfu Skaptadóttur og eiga þau þrjár stelpur. Hann er sjómaður í húð og hár, byrjaði ungur sem háseti en starfar í dag sem annar stýrimaður á Arnari HU1. Feykir hafði samband við Óla og féllst hann á að svara nokkrum laufléttum spurningum. Einnig er gaman að geta þess að hann er mikill myndasmiður og á forsíðumynd Feykis þessa vikuna.

Hvenær byrjaðir þú að stunda sjóinn og hvernig kom það til?
-Var átján ára. Strákur sem ég þekkti var búin að sækja um á Hegranesinu þannig að ég gerði það líka. Hann fékk símtal um að hann gæti komist næsta túr en hann var eiginlega ekkert að nenna því að fara þannig að hann lét kærustuna sína hringja í skipstjórann og segja að hann hafi lent í bílslysi, nokkrum mínútum seinna fékk ég símtal og fékk ég þá hans pláss. Réri þá í heilt ár án þess að taka frí.

Varstu alltaf ákveðinn í að fara á sjóinn?
-Nei, ég var sko ekki ákveðinn í að fara á sjó, vissi ekkert hvað ég ætti að gera. Bullandi lesblindur, lítill og ræfilslegur.

Hvað er skemmtilegast við sjómennskuna?
-Mér finnst þetta skemmtileg vinna, þetta er mjög fjölbreytt, enginn dagur eins, mjög krefjandi starf. Getum verið í ufsaveiði einn daginn, karfa þann næsta, svo ýsu og þorsk. Maður veit aldrei hvert stefnan er tekin. Bestu tímarnir eru þegar það er spegilsléttur sjór, erum að taka trollið og það er mokfiskerí. Þú nærð aldrei tilfinningunni á filmu við að sjá sólina setjast við sjóndeildahringinn þegar þú ert á sjó. Það er eitthvað svo friðsælt.

Hvað er erfiðast við sjómennskuna?
-Það er náttúrulega fjarveran, ég er búin að eyða andskoti mörgum dögum á sjó. Það eru ansi margir sjótímar en upp á móti kemur að þegar maður er heima í fríi, þá er maður heima, eða svona næstum því, það er að segja ef maður er ekki að brasa eitthvað, strandveiðar, eða veiða á kvóta frá Bolungarvík, smíða og margt fleira. Maður er náttúrulega bullandi ofvirkur….

Einhverjar hættulegar eða öðruvísi aðstæður sem þú hefur lent í en venjulega?
-Maður gæti lengi talið upp mörg atriði, fengið í skrúfuna á Örvari, brotinn sveifarás á Hegranesinu, horft á eftir lóðinu detta í sjóinn þegar sigurnaglinn brotnaði í blökkinni þegar við vorum á tveim trollum. Það eru hættur allsstaðar en það er eitt sem stendur uppúr. Vorum staddir í Norskri lögsögu þegar einn veikist, veikist illa og enginn veit hvað er í gangi. Í einum kaffitímanum eftir hífopp sendi ég strákana í kaffi og ég er að laga trollið aðeins því við ætluðum að kasta eftir kaffi. Fyrir algjöra tilviljun voru þeir í borðsalnum og sáu inn í setustofu þar sem hann byrjar að fá krampakast og svo hjartastopp í framhaldi af því. Strákarnir sjá hvað er að gerast og draga hann niður á gólf og hnoða hann aftur í gang og bjarga lífi hans, ef þeir hefðu ekki verið í borðsalnum hefði þetta getað farið mikið verr. Þetta eru skelfilegar aðstæður að lenda í og vera svona fjarri heimili sínu og hvað þá Íslandi. Að vera með svona mönnum á sjó sem vita hvað þeir eiga að gera eru forréttindi, kom svo í ljós að hann var með æxli í höfðinu.

Við erum mjög samrýndur hópur sem er með mér á sjó, þetta er eiginlega önnur fjölskylda manns. Þeir eru mjög skilningsríkir þegar ég hef verið að læra alla frívaktina og mæti frekar þreyttur á vakt, þeir gera starfið mitt mjög einfalt, þetta eru allt saman öðlingar, gæti ekki hugsað mér betri stað til að vera á sjó. Hægt að tala endalaust um þetta svosem.

Geturðu lýst venjulegum degi eða vakt hjá þér um borð?
-Ég vakna alltaf 50 mínútur fyrir vaktaskipti, maður rífur sig ekki beint á fætur, maður er oftast þreyttur, fer niður og borða, tek manntal og ræsi aftur þá sem náðu sér ekki á lappir við fyrsta ræs, sem er 40 mínútur fyrir vaktaskipti. Vaktin byrjar 12:00 t.d. Stundum er farið beint í hífopp eða niður í vinnslu, stundum er rifið en afar sjaldan. Það er alltaf tekin stöðufundur með hinum vaktformanninum, hvort eitthvað hafi komið upp á hjá honum sem ég ætti að vita af. Þetta er mjög þægileg vinna, vinnum til 14:00 en þá er pása í 10. mín, unnið svo til 16:00 en þá er hálftíma kaffi, ég gleypi í mig og tek svo kaffibollann upp í brú og leysi kallinn af í brúnni meðan að hann fer í kaffi. Svo er vinna áfram frá 16:30 til 18:30 en þá tökum við aðra 10. mín pásu. Þegar klukkan er orðin 19:45 fer ég upp í brú og leysi kallinn af í kvöldmat, reyni að fiska aðeins ef hann er með allt niðrum sig meðan að hann borðar. Þegar klukkan er orðin 20:00 og vaktinni þar með lokið fer ég í bókhaldið og geri upp vaktina, hvað fóru margir kassar niður í lest. Set inn vinnsluprufur sem matsmaðurinn tók á vaktinni og svo framvegis. Ég kem alltaf of seint í kvöldmat, kokknum til mikillar gleði!!!

Áður birst í 21. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir