Ólíklegt að Hafíssetrið verði opnað aftur

Hillebrandtshús á Blönduósi þar sem Hafíssetrið er til húsa.
Hillebrandtshús á Blönduósi þar sem Hafíssetrið er til húsa.

Óvissa ríkir um framtíð Hafíssetursins á Blönduósi og hefur svo verið um nokkurt skeið eða síðan því var lokað í sumarlok árið 2015. Fréttavefurinn Húni.is fjallaði um málið í gær og birti meðal annars viðtal við Þór Jakobsson veðurfræðing og upphafsmann að Hafíssetrinu. Setrið var opnað sumarið 2006 í öðru af tveimur elstu húsum Blönduóss, Hillebrandtshúsinu, og gekk starfsemi þess vel fyrstu árin en þegar á leið reyndist ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi starfsemi með tilliti til aðsóknar.

Í frétt Húna kemur fram að Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar, telji ólíklegt að setrið verði opnað aftur, a.m.k. ekki í sömu mynd og áður, en það er Blönduósbær sem er eigandi setursins. Segir hann að þörf sé á að uppfæra setrið, t.d. þurfi texta á fleiri tungumálum á veggspjöldum sýningarinnar sem er sambland veggspjalda, mynda og muna sem minna á norðurslóðir. Þar er fjallað um hafís á fjölbreyttan og fræðandi hátt, m.a. um hvað hafís er, norðurslóðir, veðurfarsbreytingar, hafís við Ísland, veðurathuganir á Blönduósi, hafískannanir fyrr og nú, Austur-Grænland og konung norðursins – hvítabjörninn.

Í samtali við Þór Jakobsson kemur fram að hann sé orðinn langþreyttur á að ekki skuli fást afgerandi svar frá Blönduósbæ varðandi framtíð setursins og hafíssýningarinnar en þannig hafi það gengið í nokkur ár. Segist hann hafa verið í góðu sambandi við Blönduósbæ síðan setrinu var lokað en að sveitarfélagið virðist ekki getað tekið fullnaðar ákvörðun um framtíð þess þar sem ýmislegt sé á döfinni, t.d. varðandi gamla bæinn á Blönduósi, þar sem setrið er til húsa. Þór segir að hönnuður sýningarinnar, Björn G. Björnsson, og ýmsir málsmetandi menn í ferðamennsku, telji sýninguna ekki úrelta og að hún gæti gengið í nokkur ár í viðbót. Þá segir Þór að aðrir aðilar hafi sýnt áhuga á að fá sýninguna til sín.

Að sögn Valdimars O. Hermannssonar sveitarstjóra var setrinu lokað vegna þess að komið var að umtalsverði uppfærslu á sýningunni sem felist m.a. í því að hafa texta á veggspjöldum og við myndir og muni á fleiri tungumálum. Segir hann að það hafi þó verið til óformlegrar skoðunar með einum áhugasömum aðila að reyna að opna sýninguna aftur, byggða á sama efni en með mjög áhugaverðri viðbót, sem félli vel að núverandi grunni Hafíssetursins.

„Þetta er þó háð styrkjum og öðrum atriðum sem eru í vinnslu þannig að það er ekki orðið ljóst hvort setrið nær að opna aftur í breyttri mynd fyrir næsta sumar, þó svo að það væri vissulega æskilegast í stöðunni,“ segir Valdimar í samtali við Húna.is.

Ennfremur segir Valdimar að vinna sé farin af stað við deiliskipulag fyrir gamla bæinn þar sem allt skipulag verði endurskoðað og hugað að aðkomu, allri þjónustu, bílastæðum og síðan innra skipulagi gamla bæjarins og fegrun hans.

Sjá nánar hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir