Ómetanlegt samstarf Höfðaskóla við Nes listamiðstöð

Nemendur í myndmennt heimsóttu Nes listamiðstöð og kynntust þar m.a. kínveskri leturgerð. Mynd: Hofdaskoli.is.
Nemendur í myndmennt heimsóttu Nes listamiðstöð og kynntust þar m.a. kínveskri leturgerð. Mynd: Hofdaskoli.is.

Nemendur í myndmennt í Höfðaskóla á Skagaströnd heimsóttu Nes listamiðstöð og kynntust þar m.a. kínverskri leturgerð hjá þeim Martin og Wen-Hsi. Á heimasíðu skólans segir samstarfið við Nes listamiðstöð vera ómetanlegt.

„Martin og Wen-Hsi búa í Bretlandi en Wen-Hsi er upprunalega frá Taívan og fengu nemendur einnig að læra aðeins um hina ýmsu siði og öðruvísi menningu fólks sem er frá Asíu. Meðal annars um það hvernig fólk í Asíu fagnar nýju ári og hvaða stjörnuspá þau fara eftir.

Síðan fengu nemendur kennslu í þeirri sérstöku tækni sem notuð er við kínverska leturgerð. Nemendur máluðu með bleki á rauðan pappír (sem er gerður úr hrísgrjónum og bómull) með penslum úr úlfa og kinda hárum sem Wen-Hsi og Martin komu með frá Taívan.

Nemendur æfðu sig í að mála tákn sem þýða: Að eilífu, Mikla lukku og Vor, en þessi orð eru notuð til að skreyta hús fólks sem heldur upp á áramótin með Asískum sið. Öll stóðu sig frábærlega og öll sýndu þessu verkefni mikinn áhuga og höfðu gaman af,“ segir í frétt skólans en þar er hægt að nálgast fjölda mynda frá heimsókninni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir