Opinn fundur Framsóknar í gær

Vel var mætt í Framsóknarhúsið í gærkvöldi en  Ásmundur Einar Daðason og Halla Signý Kristjánsdóttir voru gestir fundarins. Mynd: PF.
Vel var mætt í Framsóknarhúsið í gærkvöldi en Ásmundur Einar Daðason og Halla Signý Kristjánsdóttir voru gestir fundarins. Mynd: PF.

Ásmundur Einar Daðason og Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmenn Norðvesturskjördæmis, voru gestir Framsóknarfélags Skagafjarðar í gærkvöldi en boðað hafði verið til opins stjórnmálafundar í Framsóknarhúsinu á Sauðárkróki. Vel var mætt í salinn og sköpuðust fínar umræður um hin ýmsu málefni.

Nú er kjördæmavika og Framsóknarþingmenn kjördæmisins nýta hana til að hitta fólk víða í kjördæminu. Fyrsti fundur var haldinn á Hvammstanga fyrr um daginn. Halla Signý sagði það mikilvægt að geta hitt fólkið í heimabyggð og átt með því samtal. Hóf hún sína framsöguræðu með því að fara yfir helstu mál og áherslur Framsóknarflokksins en þar er samgönguáætlun meðal helstu mála. Hún var afgreidd út úr nefnd í síðustu viku og það mál sem krafist hefur mestrar vinnu í nefnd, síðustu misserum, að mati Höllu. „Þetta er gríðarlega mikilvægt plagg. Við erum að sjá samgönguáætlun sem er fullfjármögnuð, eins og hún lítur út. En vissulega hefur vinnan verið á þann veg að verið er að útfæra leiðir til að fara í flýtiframkvæmdir, hvort sem það verður með gjaldtöku eða einhverri annarri fjármögnun,“ sagði Halla sem telur málið skipta landsbyggðina miklu máli sérstaklega með vegi sem vilji er til að færa framar í framkvæmdalistanum.

Ásmundur Einar sagði að reynt sé að funda sem víðast enda mikilvægt að geta átt milliliðalaus samtöl. „Það er mjög auðvelt að verða einangraður, í fyrsta lagi í Reykjavík og öðru lagi í þessu starfi sem maður er í þar. Þannig að það er gríðarlega mikilvægt að að geta átt þessi samskipti hérna og þannig getum við í sameiningu komið góðum hlutum í verk.“

Ásmundur hóf sína ræðu á vangaveltum um matvælastefnu fyrir Ísland, sem hann telur mjög mikilvæga. Í fyrirspurnum má segja að íþyngjandi landsbyggðarskattar í ferðaþjónustu og almennt í atvinnugeiranum hafi verið áberandi auk ákalls til frekari flutninga á opinberum störfum út á land.  Þá má ekki gleyma almennissamgöngum, bæði á lofti og á láði en segja má að hugmyndir um gangnagerð um Tröllaskaga muni verða sett á oddinn.

Eftir framsögu, umræður, spurningar úr sal og ágæt svör þingmannanna tveggja þakkaði Ásmundur fyrir góðan fund og þá brýningu sem þau fengu frá fundargestum. „Til þess erum við komin, að hitta fólk og láta brýna okkur. Það er vegna þess að stjórnmál snúast um að gera breytingar og þegar við hættum að trúa því að það sé hægt að breyta einhverju þá ættum við að gera eitthvað annað,“ sagði Ásmundur í lokin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir