Ratsjáin fer vel af stað

Þátttakendur Ratsjárinnar í heimsókn á Hvammstanga. Mynd: Ratsjain.is
Þátttakendur Ratsjárinnar í heimsókn á Hvammstanga. Mynd: Ratsjain.is

Eins og greint var frá á Feyki.is í síðustu viku var Ratsjáin, nýsköpunar- og þróunarverkefni Íslenska ferðaklasans og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, sett af stað þann 12. febrúar sl. með þátttöku sex fyrirtækja á Norðurlandi vestra. Verkefnið gengur þannig fyrir sig að hvert og eitt fyrirtæki er tekið fyrir í einu þar sem þau bjóða öðrum þátttakendum í verkefninu heim og fara þá þátttakendur nákvæmlega í gegnum rekstur þess fyrirtækis. 

Fyrsti heimafundur Ratsjárinnar á Norðurlandi vestra var svo haldinn þann 19. febrúar hjá Selasiglingu á Hvammstanga. Þar kynntu þátttakendur sér starfsemi fyrirtækisins sem er eina fyrirtækið á Íslandi sem býður upp á skipulagðar ferðir í selaskoðun á sjó. Í Miðfirði eru hæg heimatökin til þess þar sem auðvelt er að komast nærri selalátrum við fjörðinn. Á fundinum var starfsemi fyrirtækisins kynnt og þátttakendur rýndu í tækifæri, áskoranir, rekstur og rekstrarumhverfi fyrirtækisins.

Á vefsíðu Ratsjárinnar segir að hópavinnan hafi farið vel af stað og hópurinn náð góðum árangri, þrátt fyrir mikið flæði af nýjum upplýsingum en þessi fyrsti heimafundur einkenndist af því að læra inn á aðferðafræði Ratsjárinnar og kynnast öðrum þátttakendum og skipuleggjendum. Í lok dags lágu fyrir athuganir, umsagnir og tillögur sem allar byggjast á reynslu þátttakanda.

Næsti heimafundur verður haldinn þann 5. mars hjá ferðaþjónustunni Lýtingsstöðum í Skagafirði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir