Rausnarleg gjöf til HSN á Blönduósi
Síðastliðinn laugardag afhentu Hollvinasamtök HSN á Blönduósi Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi fullbúna aðstandendaíbúð sem ætluð er sem athvarf fyrir þá aðstandendur sem dvelja þurfa á sjúkrahúsinu um lengri eða skemmri tíma með mikið veikum sjúklingum.
Sigurlaug Hermannsdóttir, formaður Hollvinasamtakanna, flutti ávarp og sagði að með þessu verkefni hefði verið lyft grettistaki með góðum stuðningi fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga. Íbúðin er afhent í minningu Sigursteins Guðmundssonar sem var læknir Austur-Húnvetninga í hartnær 40 ár og bar hag sjúkrahússins og skjólstæðinga þess mjög fyrir brjósti.
Í máli Sigurlaugar kom fram að ákvörðun um að hefja söfnun fyrir aðstöðu fyrir aðstandendur hafi verið tekin árið 2016 og í kjölfarið hafi boðist að nýta fæðingaraðstöðuna á sjúkrahúsinu sem var lögð niður fyrir mörgum árum. Í apríl sl. komst svo skriður á verkið og hafa sjálfboðaliðar lagt ómælda vinnu af mörkum við verkið og þakkaði Sigurlaug þeim og öðrum sem gert hafa þetta verkefni að veruleika.
Að lokum afhenti Sigurlaug lykil og gjafabréf að íbúðinni til þeirra Ásdísar Arinbjarnardóttur, yfirhjúkrunarfræðings og Helgu M. Sigurjónsdóttur, yfirhjúkrunarfræðings á sjúkradeild.
Gestum var svo boðið að skoða íbúðina sem er afskaplega vistleg og öll hin smekklegasta.