Rúmlega 100 börn skemmtu sér saman í gleði og leik

Mynd: Það viðraði vel til útiveru þegar fjöldi 10-12 ára barna kom saman á Löngumýri fyrir skömmu. Mynd: Bryndís Valbjarnardóttir
Mynd: Það viðraði vel til útiveru þegar fjöldi 10-12 ára barna kom saman á Löngumýri fyrir skömmu. Mynd: Bryndís Valbjarnardóttir

Helgina 23.-24. nóvember komu yfir eitthundrað 10-12 ára börn saman á TTT móti á Löngumýri, ásamt öllum prestum í Húnavatns- og Skagafjarðar prófastsdæmi. Að sögn Sigríðar Gunnarsdóttur, sóknarprests á Sauðárkróki, tókst mótið vel í alla staði enda mikið sungið, lært og leikið.

„Við köllum TTT, tíu til tólf ára starfið, Stubbana og höldum Stubbafundi alla fimmtudags eftirmiðdaga í Safnaðarheimilinu á Sauðárkróki þar sem er sungið og leikið á alls oddi,“ segir Sigríður sem var mög ánægð með stemningu helgarinnar. „Hún var ljómandi fín, alltaf góð stemning á Löngumýri, krakkarnir skemmtu sér vel og voru til fyrirmyndar.“

Þrátt fyrir að fréttir segi af og til af minnkandi ásókn í kirkjur eða úrsagnir úr Þjóðkirkjunni segir Sigríður að krakkar í dag hafi almennt áhuga á kristilegu. „Já, mörg hafa það. 20-30 krakkar mæta að meðaltali á hvern Stubbafund og þau eru mjög áhugasöm. Foreldrarnir gefa samt örugglega tóninn í þessu eins og öðru, þau sem fá hvatingu að heiman eru líklegri til að koma.“

Aðspurð um hvort kirkjan, eða önnur trúfélög, séu komin með einhver öpp til að auðvelda fólki aðgang að Guðsorðinu, segir hún svo vera því Biblían er þegar komin í app og aðgengileg á www.biblia.is.

Nú er aðventan byrjuð og Sigríður vill hvetja fólk til að koma til kirkju. „Margir segjast alltaf vera á leiðinni. Það er heilmikið um að vera í flestum kirkjum á aðventu og jólum og þar er í boði andleg næring og boðskapur sem byggir upp.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir