Stefnt að því að breyta gömlu síldarverksmiðjunni á Skagaströnd í hótel

Halldór í sjónvarpsviðtali. Verksmiðjuhúsið og hið verðandi hótel í bakgrunni. MYND: HÚNI
Halldór í sjónvarpsviðtali. Verksmiðjuhúsið og hið verðandi hótel í bakgrunni. MYND: HÚNI

Húnahornið vitnaði um helgina í frétt Sjónvarpsins þar sem sagt var frá því að sveitarstjórn Skagastrandar vonist til að í nánustu framtíð muni gamla síldarverksmiðjan í bænum hýsa ferðamenn. Gangi fyrirætlanir sveitarfélagsins eftir verður verksmiðjunni breytt í 60 herbergja hótel. Haft var eftir Halldóri G. Ólafssyni, oddvita sveitarstjórnar, að skortur á gistirýmum á Norðurlandi vestar standi þróun ferðaþjónustu fyrir þrifum og að sveitarstjórn sjái tækifæri í því að byggja hótel.

„Síldarverksmiðjan var byggð upp úr 1945 en afköst urðu ekki þau sem væntingar stóðu til. Þá var verksmiðjan nýtt til vinnslu á fiskimjöli og nú síðast sem frystiklefi. Sveitarfélagið tók við byggingunni fyrir rúmu ári og tók þá við að finna henni hlutverk,“ segir í frétt Húna.

Hugmyndin er að hótelið verði í hráum verksmiðjustíl og að inngangur gesta verði þar sem síldin kom inn í verksmiðjuna. Halldór bendir á að hótelherbergi á Norðurlandi vestra séu aðeins 4% af öllum hótelherbergjum á landinu. Sveitarfélagið hefur fjármagnað endurhönnun á verksmiðjunni sem Herring hotel og leitar nú fjárfesta.

Fleiri fréttir