Tækifæri á sviði textíls

Ragnheiður Björk Þórsdóttir, textíllistamaður og sérfræðingur Þekkingar- og Textílsetursins.
Ragnheiður Björk Þórsdóttir, textíllistamaður og sérfræðingur Þekkingar- og Textílsetursins.

Næstkomandi fimmtudag, 29. nóvember, munu Þekkingar- og Textílsetur í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands halda málstofu um ,,Stafrænan textíl – nýsköpun í þróun, hönnun og framleiðslu”. Málstofan verður haldin í Þjóðminjasafni Íslands kl. 9:00 - 11.00. Á dagskrá eru fjölbreytt erindi um möguleika og tækifæri á sviði textíls. Meðal þeirra sem flytja erindi á málþinginu er Anastasia Pistofidou, stofnandi Fab Textiles Research Lab í Barcelona, Katrín Káradóttir, fagstjóri í fatahönnun við Listaháskóla Íslands og Ragnheiður Björk Þórsdóttir, textíllistamaður og sérfræðingur Þekkingar- og Textílsetursins.

Notkun á stafrænni tækni í nýsköpun á sviði hönnunar, þróunar og framleiðslu á textílvöru fer ört vaxandi í heiminum. Hefðbundinn textíliðnaður byggist upp á mjög vatnsfrekum aðferðum og notkun eiturefna í framleiðsluferlinu og mikil þörf er á úrbótum í þeim efnum. Framleiðendur og neytendur í dag leggja áherslu á verndun umhverfisins, sjálfbærni og gæði umfram magn. Þessar nýju kröfur hafa skapað nýja möguleika og ýtt undir þróun nýrra aðferða og tækja, til dæmis í stafrænu þrykki/prenti og vefnaði.

Árið 2016 keyptu Þekkingarsetur á Blönduósi og Textílsetur Íslands svokallaðan Thread Controller 2 (TC2), stafrænan Jacquard vefstól sem er framleiddur af norska fyrirtækinu Tronrud Engineering. Vefstóllinn er tölvustýrður en samt handvirkur. Vefarar notfæra sér stafræna tækni til að búa til flókin munstur og myndir þar sem samskonar verk er ekki hægt að vinna með hefðbundnum hætti. Textíllistamiðstöð í Kvennaskólanum á Blönduósi bjóða textíllistafólki, hönnuðum og sérfræðingum aðgang að TC2 vefstólinn. Svo dæmi sé tekið þá dvaldi Janice Lessman-Moss, yfirmaður Textíldeildar Kent State háskólans í Bandaríkjunum, í listamiðstöðinni í júlí 2018 og notaði hún TC2 til að skapa verkið ,,Summer Walk Iceland: New Territory”.

Enn sem komið er er þetta eini stafræni vefstóllinn á Íslandi. Eftirspurnin eftir að leigja TC2 vefstólinn hefur vaxið mjög hratt og er hann fullbókaður fram á árið 2020. Þennan árangur má meðal annars útskýra með þeirri staðreynd að komin er fram ný kynslóð alþjóðlegs textíllistafólks og fatahönnuða, sem hafa alist upp með stafrænni tækni og umhverfi og fá formlegri þjálfun í notkun hennar í sínu háskólanámi. Þau hafa mikinn áhuga á nýjungum og þverfaglegum textílaðferðum og vilja gera tilraunir með þær.

TC2 vefstóllinn er notaður í rannsóknar- og nýsköpunarverkefni Þekkingar- og Textílsetur sem er styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís, ,,Bridging Textiles to the digital future” (,,Að byggja brú til framtíðar á sviði textíls”). Markmið verkefnisins er að greina og skrá íslenskar vefnaðarprufur og uppskriftir frá síðustu öld sem varðveittar eru m.a. í Kvennaskólanum á Blönduósi. Þær verða aðgengilegar á stafrænan hátt fyrir textíliðnaðarmenn, fræðimenn og hönnuði. Í kynningunni á fimmtudag mun Ragnheiður Björk Þórsdóttir tala um þau tækifæri sem eru á sviði vefnaðar hér á landi. Hún segir:

,,Vefnaður er mikilvægur hluti af okkar daglegu lífi. Við erum samofin textíl og textílvörum og það er svo sjálfsagt að við tökum ekki eftir því. Þróun á sjálfbærri framleiðslu á vefnaðarvöru hér á landi þarf að hefjast þar sem áherslan er lögð á hágæða íslenskt vélofið ullarefni og heimilistextíl. Huga þarf að háskólanámi í vefnaðarfræðum og textílhönnun hér á landi. Í dag eru einungis útskrifaðir fatahönnuðir á BA stigi frá Listaháskóla Íslands og Myndlistarskólinn í Reykjavík býður uppá tveggja ára diplómanám. Það er svo margt sem við gætum gert.”

Dagskrá má einnig finna á heimasíðum og samfélagsmiðlum starfstarfsaðilanna,  www.tsb.is  /    www.nmi.is/is/frettir/malthing-um-stafraenan-textil-og-hringrasarhagkerfid

/Fréttatilkynning

Fleiri fréttir