Þríeykið, þrautseigja og mjút!

Kristjana. AÐSEND MYND
Kristjana. AÐSEND MYND

ÁR ÞÚ VEIST HVAÐ :: „Þríeykið er sem einn maður!“ segir Vesturbæingurinn Kristjana Björg Guðbrandsdóttir þegar hún er spurð hver sé maður ársins. Kristjana gerir upp árið á Feykir.is í dag. Hún er þaulreynd fjölmiðlamanneskja en starfar nú sem sviðsstjóri prent- og miðlunarsviðs hjá IÐUNNI fræðslusetri. Ekki nóg með það; hún er sporðdreki, notar skó í númerinu 39 og pabbi hennar, Guðbrandur Magnússon, var um tíma ritstjóri Feykis. Árið í þremur orðum er að mati Kristjönu; þríeykið, þrautseigja og mjút!

Hver er maður ársins? Þríeykið er sem einn maður! Eiginleikar Þórólfs, Víðis og Ölmu samanlagðir eru aðdáunarverðir. Þau búa öll yfir jafnaðargeði, hafa komið hreinskilnislega fram og aðeins sýnt festu þegar það var algjörlega þarft að reka svolítið hornótta Íslendinga aftur í sín sóttvarnarhólf eða jólakúlur. 

Hver var uppgötvun ársins (fyrir utan bóluefni við þú veist hvað)? Raðir! Íslendingar kunna að standa í röð og það er ekkert annað en menningarleg stökkbreyting . 

Hvað var lag ársins? Það kemur aðeins eitt lag til greina! Það er lag Daða Freys, Think about Things. Þvílíkt lag og þvílíkur maður. Þetta var árið sem við hefðum sigrað Eurovision. 

Hvað var broslegast á árinu? Þú ert á mjút! Afsakið slangrið en það hefur fest sig rækilega á árinu. Og bergmálar úr hverri stofu landsins þar sem fólk situr vel til haft að ofan og í náttbuxum á vinnufundum. Konan sem öskraði á börnin sín að skila sér hleðslutækinu á bæjarstjórnarfundi, hún var við öll! 

Hvað var það sem þú sérð mest eftir að hafa ekki geta gert á árinu vegna þú veist hvað? Það voru forréttindi að hafa getað kvatt afa minn Magnús Sigurjónsson á Sauðárkróki í byrjun árs og hitt stórfjölskylduna. Ég finn til með fólki sem hefur ekki getað kvatt ástvini sína eins og það vildi helst gera. Ég sé mest eftir því að hafa ekki getað hitt vini og fjölskyldu eins og áður. 

Varp ársins? Queens Gambit og Mandalorian. En af íslensku gæðaefni þá er það þáttur sem er verið aða taka upp í þessum skrifuðu orðum! En ég veit hann verður góður af því ég þekki til og það er útvarpsþáttur Viktoríu Hermannsdóttur Örlagaþræðir sem verður fluttur á nýársdag og er um hana Önnu Leifs, fyrstu eiginkonu Jóns Leifs. 

Matur eða snakk ársins? Ég reyndi sjálf við ostagerð á árinu en það mistókst hrapalega og ég held það sé best að láta fagmenn um verkið. Og fyrst ég er nú í spjalli við Feyki að þá skoruðu ostarnir Grettir og Feykir hátt hjá mér. Feykir með perum, hráskinku og valhnetum (og piparkökum!) er óhætt að mæla með. Ég er ekkert að grínast með ostaáhugann á heimilinu en sex ára dóttir mín klæddi sig upp sem ostur á öskudaginn og skrifaði um daginn einlægt bréf til íslenskra ostaframleiðanda um að framleiða ostastangir í nestisboxið. Þið á Króknum skiliði þessu kannski til Mjólkursamlagsins!

Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? Ég vil skella neysluhyggjunni á bálið. Við eigum að versla meira í heimabyggð og hætta þessari innihaldslausu græðgi. Minna er meira.  

Hver var helsta lexía ársins? Árið var ein samfelld kennslustund í þolgæði.  Það bara þýðir ekki að æsa sig yfir nokkrum hlut og það er betra að taka glaðværan pól í hæðina. Eins og góður maður lagði til fyrir löngu síðan: „Fólk verður að hafa vit á því að vera í góðu skapi.“ 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir