Umdeilt frumvarp um hálendisþjóðgarð

Að Fjallabaki. Mynd:stjornarradid.is
Að Fjallabaki. Mynd:stjornarradid.is

Umhverfisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um hálendisþjóðgarð en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þjóðlendur í sameign þjóðarinnar innan miðhálendislínu verði gerðar að þjóðgarði. Mun þjóðgarðurinn ná yfir um 30% af Íslandi en um helmingur svæðisins nýtur nú þegar verndar. Má þar nefna Vatnajökulsþjóðgarð, Hofsjökul og Þjórsárver, Kerlingarfjöll, Landmannalaugar og Hveravelli.

Í frétt á vef umhverfisráðuneytisins segir að undirbúningur vegna málsins hafi staðið yfir undanfarin ár og var m.a. nefnd þingmanna úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi, ásamt fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, falið að skilgreina mörk þjóðgarðsins og setja fram áherslur um skiptingu landsvæða innan hans í verndarflokka. Nefndin skilaði skýrslu sinni um málið í lok síðasta árs og var frumvarp um Hálendisþjóðgarð kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í desember 2019. Frá þeim tíma hefur ráðherra átt víðtækt samráð og samtal um frumvarpið m.a. með fulltrúum þeirra sveitarstjórna sem eiga land að miðhálendinu.

Ljóst er að frumvarpið er umdeilt meðal sveitarstjórna sem land eiga á svæðinu og einnig hafa bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur sett mikla fyrirvara við það. Páll Magnússon, formaður allsherjarnefndar sagði í fréttum RÚV í gær að hann sé á móti frumvarpinu því það sé gert í andstöðu við sveitarfélög. „Fyrir mér er þetta algjört grundvallaratriði að það sé ekki hægt að ljúka máli af þessari stærðargráðu nema í sátt við þá sem eiga að lifa við það,“ sagði Páll. Þá hefur Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, gert grein fyrir fyrirvörum flokksins í ítarlegri yfirlýsingu í sjö liðum á Facebooksíðu sinni. Meðal þess sem flokkurinn leggur áherslu á er að valdsvið umdæmisráða verði skýrt nánar og sérstaklega þegar skarast ákvarðanir einstakra sveitarstjórna (aðalskipulag) og stjórnar Þjóðgarðsins og ráðherra.

„Undir þessum lið þarf að tryggja óskoraðar valdheimildir einstakra sveitarfélaga yfir eigin mannvirkjum og öðrum eignum innan þjóðgarðsins.
Jafnframt þarf að tryggja umsjónar- og yfirráðarétt einstakra sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka á verkefnum sem þau hafa haft með höndum. Hér undir þurfa núverandi samstarfssamningar að halda og viðkomandi sveitarfélög hafi áfram rétt til að gera slíka samninga,“ segir m.a. í færslu ráðherra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir