Valdimar Guðmannsson á Blönduósi í viðtali - Uppselt á fjármögnunarkvöld Kótilettufélagsins

Nýlega lauk viðgerðum á kirkjugarðsveggnum á Blönduósi sem staðsettur er uppi á brekkunni ofan við gömlu kirkjuna vestan Blöndu. Um steyptan vegg er að ræða sem veður og vindar hafa níðst á, slitið og tært með árunum. Valdimar Guðmannsson, formaður stjórnar kirkjugarðsins, hefur staðið í fararbroddi vegna framkvæmda og viðhalds garðsins og forvitnaðist Feykir um verkið og fjármögnunina. Meðal annars stendur til að halda veglegt kótilettukvöld þann 28. þessa mánaðar þar sem allur hagnaður mun renna til viðhalds og tækjakaupa fyrir garðinn.

Kirkjugarðurinn á Blönduósi var tekinn í notkun árið 1900 á sér því ríflega aldargamla sögu sem skráð er á skilti sem haganlega hefur verið komið fyrir í garðinum. Þar stendur m.a. að í fyrstu hafi hann einungis verið girtur vírneti á tréstólpum en þá þegar hafi verið gert ráð fyrir steingirðingu, hlaðinni eða steyptri.

„Garðurinn var hafður 40 álnir á hvern veg, þ.e. kringum 24 metra á kant, en nægilegt rými var á allar hliðar til stækkunar síðar. Sigurður Oddleifsson, eiginmaður Margrétar Gísladóttur frá Húnsstöðum, hafði forgöngu um uppbyggingu garðsins en Benedikt Pétursson á Blönduósi sá um alla járnsmíði. Garðurinn var tilbúinn haustið 1900 og var fyrst jarðsett í hann 30. nóvember það ár. Þá var borin til grafar Guðbjörg Guðmundsdóttir, ekkja Benedikts Jónssonar, búandi á Blönduósi, 82 ára gömul og Björn Erlendsson ungur drengur, sonur Erlendar Björnssonar og Guðrúnar Helgadóttur á Blönduósi.“

Gamla kirkjan á Blönduósi var vígð 13. janúar 1895 en hefur nú verið afhelguð. Kirkja sóknarinnar var áður á Hjaltabakka en talið var eðlilegt að færa hana á Blönduós þegar fólki þar fjölgaði.

Í garðinum á Hjaltabakka var fátt minningarmarka, segir í sögu kirkjugarðsins, en þó voru þar tveir steinar sem nú hafa verið fluttir í garðinn á Blönduósi, rísa þar upp við suðurvegginn. Þeir eru yfir Thomasi J. Thomsen fyrsta kaupmanni á Blönduósi, f. 1842, d. 1877 og Friðriki Valdimar Davíðssyni, verslunarstjóra á Blönduósi f. 1860, d. 1883, og eru því elstu legsteinarnir sem nú eru í garðinum. Á þriðja áratugnum var garðurinn stækkaður og girtur með neti milli tréstólpa en slá ofan og neðan við.

Þannig var girðingin fram til ársins 1973 er hann var stækkaður verulega og gerður um hann steinsteyptur veggur sem doktor Maggi Jónsson, arkitekt frá Kagaðarhóli, teiknaði. Á honum er innfellt munstur sem Snorri Sveinn Friðriksson, myndlistarmaður frá Sauðárkróki, hannaði og segja fróðir menn að vinnuheitið hafi verið: Frá vöggu til grafar.

Það vantar því ekki mörg ár upp á að hálf öld sé liðin frá því garðsvegurinn reis og ekki að undra þó viðhald væri komið á hann. Valdimar Guðmannsson er formaður stjórnar kirkjugarðsins og segir hann að hann hafi látið plata sig í þetta árið 2017. En svo virðist sem það gabb hafi borgað sig því verkefnin hafa verið leyst með afar góðum árangri þó ekki sé allt búið enn.

„Þegar ég tók að mér formennsku gerðum við þriggja ára plan. Það var að klára upplýsingaskiltin sem búið var að tala um í tíu ár, reyna að fá bílaplan við inngang sem búið var að tala um í enn lengri tíma og svo að gera við vegginn. Það sem er eftir á okkar áætlun er að endurnýja göngustíg í garðinum og setja á hann hellur. Hann er svolítið erfiður að því leyti að hann mjókkar í vestur þar sem grafir eru nálægt. Það er mikið verk að halda honum án gróðurs yfir sumarið,“ segir Valdimar og má ætla að búið sé að reyta þó nokkuð í sumar.

Hann segir viðgerð garðveggjarins hafa verið mun meiri en upphaflega var reiknað með, sérstaklega sprunguviðgerðirnar.  
„Já, þetta var mikið verk. Byrjað var á þessu síðast í maí og unnið í lotum í sumar. Við vorum með afbragðs múrara úr Mosfellsbæ sem er öðru hvoru hættur að vinna en tekur að sér minni verk og okkur tókst að plata hann í þetta. Allt efni var sérpantað erlendis frá en á að þola íslenskt veður, alla vega næstu árin,“ segir hann og brosir enda má segja að allir sem hafa skoðað framkvæmdirnar lítist vel á hvernig til hefur tekist.

Hringurinn er tæpir 600 metrar og tvöfalda má þá tölu þar sem veggurinn þurfti viðgerð beggja vegna og Valdimar jánkar þegar spurt er um kostnað. „Kostnaðurinn er mikill. Mér sýnist niðurstaðan vera um þrjár og hálf milljón.“

Kótilettur til hjálpar
Ljóst er að þegar farið er í hvers konar framkvæmdir tengdum kirkjugörðum á Íslandi er sjaldan í digra sjóði að sækjast. Þá standa stjórnir þeirra frammi fyrir þeirri spurningu, hvernig fjármögnum við verkið?

„Það er nú eiginlega saga að segja frá því. Áður en við byrjuðum höfðum við vilyrði fyrir styrkjum frá tveimur aðilum upp á tvær milljónir. Annars vegar frá Kirkjugarðssjóði og hins vegar frá Húnavatnshreppi, sem á aðild að hluta til að þessari sókn, en að öðru leyti höfum við náð að fjármagna þetta með, ég kalla það, sníkjum. Við settum lukkureikning af stað og minntum öðru hvoru á hvað við værum að gera hér og viðbrögð heimamanna hafa alltaf verið með eindæmum góð. Burtfluttir og fyrirtæki á staðnum hafa einnig stutt okkur alveg stórkostlega. Við skiljum við þetta verkefni skuldlaust.“

Valdimar er ekki einungis formaður stjórnar Kirkjugarðs Blönduóss heldur er hann einráður í Kótilettufélaginu á Blönduósi, enda smekkmaður mikill á mat. Hann segist hafa misnotað aðstöðu sína og auglýst kótilettukvöld sem fjáröflun fyrir kirkjugarðinn. Fer það fram 28. september og þegar orðið uppselt.

„Það var fyrir löngu síðan að við ákváðum að ef Kótilettufélagið myndi lifa til fimm ára aldurs myndum við reyna að gera eitthvað meira. Höfum verið kótilettukvöld í Eyvindarstofu og verið passlegt fyrir þann fjölda sem hefur sótt þetta. Mig langaði til að gera eitthvað meira þegar félagið yrði fimm ára. Var fyrir löngu búinn að panta félagsheimilið og var að horfa í kringum mig hvað við gætum gert í tengslum við það. Af því ég tengist nú þessum garði mikið þessa dagana sá ég að það var alveg upplagt að tengja þetta saman. Allur hagnaður af afmæliskvöldinu rennur til áframhaldandi viðhalds og tækjakaupa fyrir kirkjugarðinn. Hér hafa ekki verið keypt tæki í fleiri ár og það er komin endurnýjunarþörf á þau líka,“ segir Valdimar sem vonast til þess að kótilettukvöldið skili einhverju í kassann.

Skemmtikraftar biðja um að fá að vera með
Það er greinilegt að kótiletturnar virka sem hreyfiafl og mikil jákvæðni í gangi. Valdimar segir kótilettufélagið ósköp óformlegt félag sem stofnað var fyrir fimm árum. „Við vorum 27 manns í Eyvindarstofu og meiningin var að hittast tvisvar til þrisvar á ári og fá sér nokkrar kótilettur og spjalla saman. Svo þróaðist þetta og vafðist upp á sig og við fórum að fá veislustjóra og músík og þetta varð alltaf meira og meira. En þó að yfir 400 manns séu á þessari svokallaðri kótilettuskrá þá er ég afskaplega einráður í þessu félagi. Það er engin stjórn og ekkert bókhald og við kostum í sjálfu sér engu til. Björn Þór Kristjánsson veitingamaður sér alveg um það. Við sjáum bara um að safna þátttöku og útvega skemmtikrafta. Sem sagt á okkar vegum erum ekki með neina fjármuni í okkar starfsemi. Það var heldur aldrei ætlað til þess.“

Það vita allir sem eitthvað skynbragð bera á þann veislumat sem boðið er upp á að kótilettur og kótilettur er ekki það sama og hafa Valdimar og félagar fengið mikið lof fyrir þær lettur sem félagið framreiðir. „Við höfum verið að þreifa okkur áfram með þetta. Þar sem maður vinnur í kjötvinnslunni þá hef ég aðstöðu til þess að fylgjast með, eins er verkstjórinn mjög áhugasamur með þetta líka. Það bara fannst út að kótilettur af E3+ skrokkum reyndust mjög vel, mikið kjöt á þeim, reyndar svolítil fita á þeim líka, en margir vilja hafa fituna. Við höfum auglýst þetta svolítið á því. Fólk sem hefur komið á þessi kótilettukvöld er alls staðar af að landinu. Það er nú það skrítna við þetta. Jafnvel frá Vestmannaeyjum. Út úr því hafa komið pöntun til kjötvinnslunnar á svona kótilettum seinna. Við höfum sent á Ísafjörð, Reyðarfjörð og víðar. Það hefur myndast einhvers konar stemning í kringum þessar kótilettur hjá okkur og hefur þátttakan heldur vaxið.“

Valdimar segir að nú þegar reynsla sé komin á þetta allt saman er undirbúningurinn orðinn minna mál en áður. Nú býðst fólk til að koma með harmonikkur eða gítara en fyrstu árin varð Valdimar að grafa þetta upp.

„Við borgum engum fyrir að spila utan það að þeir fá að borða. Það var nú svo skemmtilegt í fyrra að þrír bræður frá Hurðarbaki í gamla Torfalækjarhreppi, reyndar allir fluttir í burtu, einn þeirra er Eyþór Björnsson fiskistofustjóri, komu með gítara og úr varð mikið stuð. Þegar næsta kvöld var haldið kom til mín maður sem spurði hvort það mættu koma þrír feðgar næst. Þá kom Benedikt Blöndal tónlistarkennari með tvo með sér. Svo í afmælishófinu koma þrír bræður héðan, Skarphéðinn tónlistarkennari, Jón Karl og Kári Húnfjörð Einarssynir, sem allir hafa lifað á því alla sína æfi að vera í tónlist.“

Valdimar er þakklátur öllum þeim sem hafa komið að kótilettukvöldum í gegnum tíðina en hann segist sjálfur hafa haldið að þetta yrði aldrei neitt sem myndi lifa í fimm ár þar sem þetta hafi bara verið fikt í upphafi. En er þá ekki möguleiki á því að þetta geti lifað næstu fimm ár?

„Ja, maður veit aldrei um það. Ég hætti ekki meðan fólk kemur,“ segir hann svo líklega verður hann að standa vaktina eitthvað áfram þar sem vel hefur verið mætt á kótilettukvöldin og uppselt í september. Hver er ekki sáttur við það?

 

Áður birst í 33. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir