Varið ykkur á símasvindlurum

Tölvuþrjótar skjóta upp kollinum af og til og hafa fjölmiðlar greint frá því að fólk hafi undanfarnar vikur fengið símtöl erlendis frá þar sem viðkomandi kynnir sig sem starfsmann Microsoft og lætur sem gera þurfi við öryggisgalla í Windows-stýrikerfinu. Varar lögregla eindregið við slíkum samtölum og hvetur fólk til að leggja á.

Kona á Sauðárkróki hafði samband við Feyki í dag og vildi einnig vara við slíkum símtölum en þá var hún nýbúin að fá eitt slíkt. Sú er hringdi talaði ensku og tilkynnti um bilun í tölvu þeirrar sem svaraði. Fannst henni þetta skrítið og ákvað að hunsa þá erlendu og lagði á. Tók hún niður númerið sem virtist vera íslenskt þar sem 00 354 var á undan símanúmerinu sem er landsnúmer Íslands. Seinni hluti númersins er 6098455 en þegar hringt er í það númer kemur í ljós að enginn notandi sé með það.

Þegar leitað er á netinu kemur í ljós að svindlarar hafa stundað þessa iðju í mörg ár. Þannig er hægt að finna viðvörun frá lögreglunni á Suðurnesjum í Víkurfréttum frá árinu 2013 þar sem varað er við svindlurum, sem hringja, kynna sig sem starfsmenn Microsoft og segja bilun vera  í stýrikerfi tölvu þess sem þeir ræða við hverju sinni. markmiðið er að utanaðkomandi nái stjórn á tölvunni, oft í glæpsamlegum tilgangi. Sjá HÉR 

Það ættu allir að hafa í huga að starfsfólk Microsoft hringir aldrei í fólk til að tilkynna og gera við öryggisgalla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir