Hviður allt að 48 m/s í Fljótum

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun vegna veðurs fyrir Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra, Norðurland eystra og Austurland að Glettingi. Suðvestanstormur eða -rok er nú ríkjandi með vindhviðum 35-45 m/s við fjöll, hvassast á Ströndum og í Skagafirði. Varhugavert er ökutækjum sem taka á sig mikinn vind að vera á ferðinni og eru ferðalangar beðnir um að fara varlega.

Sjálfvirk veðurstöð Vegagerðarinnar við Stafá á mótum Sléttuhlíðar og Fljóta í Skagafirði er nú bálhvasst, 17 m/s en 29 m/s í vindkviðum. Um klukkan 7 í morgun náðu hviður allt að 48 m/s. Vegna veðurs féll skólaakstur niður úr Fljótunum í Hofsós.

Athugasemd veðurfræðings
Í dag gengur í suðvestanstorm eða -rok á N-verðu landinu og vindhviður við fjöll gætu náð 40-50 m/s. Lægir á morgun. Íbúar á svæðunum er hvattir til að tryggja lausa hluti utandyra, sem gætu fokið og valdið tjóni. Vegfarendur sýni aðgát.

Horfur næsta sólarhringinn
Vaxandi suðvestanátt, 18-28 síðdegis, hvassast á Ströndum og við utanverðan Tröllaskaga. Dálítil rigning og hiti 8 til 15 stig. Vestlægari um miðnætti, þurrt og kólnar. Lægir smám saman á morgun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir