Vor á ný er fínasta fínt með Slagaarasveitinni

Slagarasveitin í Royal Iðnó Hall síðasta haust. MYND AF FB
Slagarasveitin í Royal Iðnó Hall síðasta haust. MYND AF FB

Hið þverhúnvetnska gæðaband, Slagarasveitin, sem skipað er mönnum á besta aldri, sendi í fyrrahaust frá sér samnefnda tólf laga breiðskífu. Útgáfunni fylgdi sveitin eftir með stórtónleikum í Iðnó í Reykjavík 22. september og daginn eftir stigu þeir á svið í Félagsheimilinu á Hvammstanga. Platan er fáanleg á föstu formi en ekki á Spotify en þangað hafa þeir félagar týnt eitt og eitt lag af plötunni og nú í byrjun maí streymdu þeir laginu Vor á ný.

Platan er hin áheyrilegasta og þar kennir margra grasa í stefnum; rokk, ballöður, diskó, kántrý og þungarokk en Vor á ný gæti flokkast sem melódískt eitís-skotið þungarokk með glæsilegum texta.

Í skilaboðum á Facebook segir: Um er að ræða kraftmikið rokklag með texta sem fjallar um veðráttu á Íslandi í hinum ýmsu myndum. Storminn, kuldann, myrkvið og hafísinn. En þrátt fyrir að veðrið leiki okkur landsmenn oft grátt þá birtist vorið að lokum með birtu og hlýju.“ Lag og texti er eftir Ragnar Karl Ingason. Dóri í Neptúnus stjórnaði upptöku, forritun, hljóðblöndun og útsetti lagið ásamt Ragnari Karli Ingasyni og Slagarasveitinni. Gestalistamenn í laginu eru Ómar Guðjónsson á rafgítar, Helgi Már Hannesson á Hammond orgel og Aldís Olga Jóhannesdóttir syngur raddir.

Það er bullandi metnaður og leikgleði í gangi á breiðskífunni, lögin oftar en ekki grípandi og laglega saman sett, textarnir margir skemmtilegir og aðrir dramatískari. Það kemst enginn hjá því að fá Gráa fiðringinn á heilann eftir fyrstu hlustun.

Meðlimir Slagarasveitarinnar eru:
Söngur: Valdimar Gunnlaugsson
Bassi og raddir: Geir Karlsson
Kassagítar og raddir: Ragnar Karl Ingason
Trommur: Skúli Þórðarson
Kassagítar og raddir: Stefán Ólafsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir