Að loknu forvali VG

Ásmundur Einar Daðason

Ég gaf kost á mér í 2.-4. sæti á listans og náði góðri kosningu í 3. sæti sem ég er mjög þakklátur fyrir. Eftir að hafa starfað með VG síðastliðin 7 ár, sótt kjördæmisþing, landsfundi og verið einn tveggja kosningastjóra flokksins fyrir síðustu alþingiskosningar þá hefur það orðið til þess að ég hef kynnst flokksmönnum um allt kjördæmið mjög vel. Þetta hefur að öllum líkindum gefið mér ákveðið forskot umfram þá frambjóðendur sem ekki hafa starfað með flokknum af fullum krafti og þekkja lítið til innan kjördæmisins. 

 

Fljótlega eftir að forvalið hófst hafði samband við mig einn ágætur frambjóðandi, sem ég ætla ekki að láta nafns getið frekar en Morgunblaðið og fleiri fjölmiðlar. Þessi frambjóðandi ræddi við mig um hversu alvarlegt það væri að Jón Bjarnason hefði kjörskrá en aðrir ekki. Ég kannaðist ekki við þessa umræðu og sagði að þetta væri að sjálfsögðu alvarlegar ásakanir ef þær væru sannar.

 

Gegnum árin hef ég m.a. starfað með Jóni Bjarnasyni, farið með honum á fundi o.fl. Hverjum þeim sem vinnur með Jóni verður strax ljóst að fáir hafa jafn yfirgripsmikla þekkingu á kjördæminu bæði þegar kemur að mönnum og málefnum. Þessi forgjöf hans á aðra keppinauta er staðreynd en það er líka staðreynd að þetta er eitthvað sem hann hefur byggt upp með eigin krafti og vinnu í þágu fólksins í kjördæminu. Þegar framboðsfresti í forvalinu lauk var ljóst að margir höfðu gefið kost á sér í efstu sæti listans. Frá fyrsta degi var ég staðráðinn í því að styðja Jón áfram til forystu í kjördæminu þrátt fyrir að nokkrir aðrir frambærilegir einstaklingar hefðu gefið kost sér. Forvalsbarátta mín var einföld, ég hafði samband við fólk sem ég var málkunnugur á ákveðnum svæðum og ræddi mínar helstu áherslur.

 

Vegna þeirra alvarlegu ásakana sem ég varð áskynja þá hafði ég samband við formann kjördæmisráðs VG, formann kjörstjórnar auk þess sem ég heyrði í fleiri kjörstjórnarmönnum. Niðurstaðan var allsstaðar sú að þessu yrðu allir að lúta, þar með talinn Jón Bjarnason. Þetta hefði verið ákvörðun sem tekin var og hefði verið í samræmi við þær reglur sem voru hjá VG í Norðausturkjördæmi. Þarna kom einnig fram að mögulegt væri að fá upplýsingar úr kjörskránni og skoða hana hjá formanni kjördæmisráðsins en ekki væri mögulegt að fá eintak af henni. Sjálfur þurfti ég ekki að nýta mér það að líta í kjörskrá en ef svo hefði verið þá var lítið mál að gera það gegnum formann kjördæmisráðs.

 

Í framhaldi af þessu hafði ég aftur samband við þennan ágæta frambjóðanda og tjáði honum þetta og taldi í framhaldinu ekki ástæðu til að aðhafast frekar útaf þessu. Nú er þessi umræða að koma upp á nýjan leik og á sem fyrr ekki við nokkur rök að styðjast og það staðfestir m.a. Drífa Snædal framkvæmdastýra flokksins.

 

Það er miður þegar svona umræða fer af stað og sérstaklega þegar hún á ekki við nokkur rök að styðjast. Því hljóta menn að velta því fyrir sér hver sé raunverulegur tilgangur þessa ágæta frambjóðanda og hvaða hvatir liggja þarna að baki.

 

Þegar haldið er af stað í forval veit enginn hver niðurstaðan verður og yfirleitt uppskera menn í samræmi við það hvernig sáð hefur verið. Mikið af mjög frambærilegum einstaklingum gaf kost á sér og í upphafi var ljóst að aldrei myndu allir ná þeim árangri sem þeir stefndu að. Niðurstaðan varð þessi og er ég persónulega mjög þakklátur þeim stuðningi sem mér er sýndur og það verður mjög gaman og krefjandi að takast á við þau verkefni sem þessu fylgja.

 

Ásmundur Einar Daðason

asmundur.blog.is / asi@simnet.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir