Að setjast í sekk og ösku - Pistill Byggðasafns Skagfirðinga

Senn líður að þremur dögum sem jafnan vekja spennu og tilhlökkun margra, nefnilega bolludegi, sprengidegi og öskudegi. Í ár lenda þessir hátíðisdagar áts, gleði og gríns á 4-6. mars. Öskudagurinn, sá dagur sem við þekkjum nú fyrir búninga, glens og söng, á sér langa sögu. Öskudagsheitið á rætur að rekja til katólsks siðar en þá var ösku dreift yfir höfuð iðrandi kirkjugesta í upphafi lönguföstu (orðasambandið að sitja á eða í sekk og ösku vísar til iðrunar eða sorgar). Askan táknaði þá hið óverðuga og forgengilega en einnig þótti hún búa yfir hreinsandi krafti eldsins. Dagaheitið þekkist hérlendis frá miðri 14. öld, en sennilega er það nokkru eldra (siðurinn að dreifa ösku á söfnuðinn nær aftur til 11. aldar). Eftir siðaskipti lauk iðrunarhlutskiptum öskudagsins hérlendis og úr urðu hátíðarhöld eins og víða þekkjast, þar sem ærslagangur og gleði taka öll völd.[1]

Öskupokar, sem margir kannast við, þekkjast a.m.k. frá miðri 17. öld og virðast vera arfleifð hins forna katólska siðar. Öskupokar voru litlir pokar úr klæðispjötlum sem stundum voru fylltir af ösku og fólk reyndi að hengja hvert á annað með títuprjóni án þess að hinn aðilinn yrði þess var. Öskupokar virðast vera séríslenskt fyrirbæri, sem hugsanlegt er að hafi þróast í gamla bændasamfélaginu, þ.e. gleðskapur og stríðni átti sér stað inni á heimilum fólks en ekki á götum úti og þannig hefur þróun siðarins markast af aðstæðum fólks í þá daga.[2]

Um öskupoka hefur Jón Árnason, þjóðsagnasafnari, þetta að segja:
„Öskudagurinn er fyrsti miðvikudagur í föstu. Hann hefur verið haldinn á annan hátt á Íslandi eftir siðabótina en pápiskir halda hann sem setjast þá í sekk og ösku. Íslendingar hafa haldið upp minningu hans með glensi og gamni síðan með því að kvenfólk hefur hengt á karlmenn smápoka með ösku í eða komið henni á þá öðruvísi; það heita öskupokar. En karlmenn hefna sín með því aftur á kvenfólkinu að þeir koma á þær smásteinum ýmist í pokum eða á annan hátt. Oft hefur orðið þrætni úr því hvort það ætti að metast gilt ef karl eða kona bæri ösku eða stein öðruvísi en í poka sem kræktur væri á með títuprjóni svo hitt vissi ekki af og eins úr því hversu langt skuli ganga með öskuna eða steininn til þess að burðurinn sé lögmætur, því þeim sem koma ösku eða steini á aðra þykir nægja ef gengið er með hvort um sig þrjú fet, en hinir sem bera kalla það ómark ef skemmra er gengið en yfir þrjá þröskulda. Um þetta eru enn mjög deildar meiningar.“[3]

Á fyrstu áratugum 20. aldar bar nokkuð á félagafögnuðum á öskudaginn og árið 1915 er fyrst greint frá gamansemi barna á götum úti í Morgunblaðinu, en orðalagið bendir þó til að sá siður hafi ekki verið nýr af nálinni þá. Um svipað leyti fór að bera á því að öskupokarnir væru gerðir og seldir af fólki og fyrirtækjum, frekar en að vera heimagerðir. Nýju pokarnir voru frábrugðnir þeim gömlu að því leyti að þeir voru ekki fylltir af ösku og steinum, heldur frekar saumaðir úr skrautlegu efni og oft áteiknaðir eða málaðir.[4]

Inga Katrín D. Magnúsdóttir

Áður birst í 8. tbl. Feykis 2019

[1] Árni Björnsson, Saga daganna. (1993). Mál og menning, Reykjavík. Bls. 565-581.

[2] Árni Björnsson, Saga daganna. (1993). Mál og menning, Reykjavík. Bls. 569.

[3] Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, II bindi. (1954). Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfu. Bókaútgáfan Þjóðsaga. Bls. 553.

[4] Árni Björnsson, Saga daganna. (1993). Mál og menning, Reykjavík. Bls. 574-575.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir