Að vera með „vitlausar skoðanir“

Á tímum samfélagsmiðla og stöðugrar tækniþróunar hinnar svokölluðu fjórðu iðnbyltingar ætti það að vera orðið auðveldara að ná til ungs fólks, og vekja áhuga þeirra á stjórnmálum og pólitískri umræðu. Ég efast ekki um að fjöldi ungmenna hafi áhuga, myndar sér skoðanir og hafi kröftugan vilja til þess að taka þátt í flokksstarfi af einhverju tagi, eða vera virkt í félagsstarfi utan stjórnmálaflokka.

Ég hef það þó á tilfinningunni að það sé minni áhugi í dag meðal ungs fólks á að starfa í stjórnmálum. Þá ályktun dreg ég út frá því sem ég hef sjálfur heyrt og upplifi að sumu leyti persónulega. Það þarf að þora að láta vaða, segja skoðanir sínar sama hversu mikilli dómhörku þær kynnu að sæta og vera sama þó maður yrði tekinn í gegn af virkum í athugasemdum.

Af hverju skyldi þetta vera?
Fyrir þessu kunna að vera ýmsar ástæður. Þær eru þó vissulega mismunandi eftir fólki. En, með tilkomu samfélagsmiðla hefur umræðuhefðin breyst. Það er ekkert mál að segja skoðanir sínar á yfirvegaðan og málefnalegan hátt, en á sama tíma getur maður átt von á því að einhver hakki mann í sig, ásaki, eða geri manni upp skoðanir.

Kann að vera að umræðan sé orðin öfgakenndari?
Ég upplifi umræðuna þannig að til dæmis, ef þér finnst ekki sjálfsagt að hann Magnús bílstjóri geti heiti Margrét, þá sértu fáviti, eða ef þú ert á móti því að hægt sé að fara í þungunarrof fram að tuttugustu og annarri viku, þá sértu á móti sjálfsákvörðunarrétti kvenna. Viljir þú fá léttvín í búðir, þá sértu óábyrgur og viljir stofna lífi ungs fólks í hættu og ef þú ert efins um að kynlaus klósett sé málið, að þá sértu gamaldags og fordómafullur.

Það virðast allir eiga að hafa sömu skoðunina. Allir eiga að vera sammála og alls ekki detta það í hug að bera ,,vitlausar“ skoðanir á borð. Þetta getur ekki verið hollt fyrir málefnalegar umræður, ekki heldur fyrir mannleg samskipti og allra síst gott fyrir hið margumtalaða lýðræði.

Hversu hollt skyldi það vera fyrir Alþingi, stjórnmálaflokka og lýðræðið ef sá sem í raun er ekki sammála þeim sem hæst hafa , “hinu réttsýnu” kæmi ekki sínum skoðunum á framfæri af ótta við að vera með aðrar skoðanir en fylgdi þess í stað “hinum réttsýnu”.

Er ekki heilbrigðara að fá ólíkar skoðanir fram? Rökræða, en ekki upphrópa sem margir virðast eiga afskaplega erfitt með að tileinka sér. Er ekki mannlegra að hlusta á skoðanir annarra án þess að dæma viðkomandi?

Stjórnmálin þurfa að vera spennandi vettvangur að starfa á. Við unga fólkið þurfum að fá þau skilaboð að það sé í lagi að vera með ólíkar skoðanir, það þurfi ekki alltaf að vera sammála, maður á að standa með sannfæringunni sinni, fylgja hjartanu og hugsjón, því ef það gerist ekki, þá halda stjórnmálaflokkar á Íslandi áfram að líkjast hver öðrum meira og meira, og enginn almennileg skoðanaskipti myndu eiga sér stað. Annars getum við bara sameinað alla flokka, allt heila klabbið. Flokkar þurfa að mynda sér sérstöðu.

Getum við ekki sammælst um að fagna ólíkum skoðunum, fagna fjölbreyttri umræðu, fagna rökræðum?

Róbert Smári Gunnarsson
Höfundur er formaður Víkings - ungra Sjálfstæðismanna í Skagafirði.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir