Að vera örvhent/ur - Áskorandi Eva Hjörtína Ólafsdóttir

Ég tók áskorun skólasystur minnar úr Gaggó og samstúdents, Ninnu í Ketu, um að hamra lyklaborðið með hugleiðingum brottflutts Skagfirðings. Ég fæddist á Króknum og ólst þar upp, er dóttir Óla rafvirkja og Haddýjar í Rafsjá. Þegar ég hugsa um æskuárin á Króknum þá er eins og öll sumur hafi verið alveg einstaklega sólrík en þó aldrei logn.

Veturnir á Króknum voru snjóþungir og hægt að leika sér endalaust í snjónum með ferðum í Grænuklauf og ég tala nú ekki um  að renna sér á skautum úti á götu svo til öll kvöld. Skólagangan var hefðbundin, fyrst gamli Barnaskólinn síðan Gaggó. Vorið 1989 varð ég stúdent frá FáS í kjölfar kennaraverkfalls. Eftir það lá leiðin í háskólanám en ég útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá HA 1995 og hef starfað sem slíkur alla tíð síðan. Síðastliðin fimm ár hef ég unnið hjá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga sem kjararáðgjafi.

Það sem háði mér oft og tíðum þegar ég var að alast upp og í námi var að ég er örvhent. Lengi vel var ég mjög ósátt við það. Ég var t.d. mjög lengi að læra að reima skó og þegar ég lærði að keyra bíl þá sagði Baldi ökukennari: „Jæja Eva mín, nú bökkum við til hægri og förum út götuna“ og ég bakaði til vinstri og fór inn götuna! Það að vera tekinn upp að töflu í skóla er aldrei gleðiefni fyrir örvhenta þ.e.a.s. ef þeir eiga að skrifa á töfluna þar sem peysuermin var alltaf útötuð í krít eða töflutússi og afrakstur vinnunnar þurrkaður út jafnóðum. Hannyrðir og ég höfum heldur aldrei átt samleið!

Ég hef á seinni árum hins vegar komist að mörgu jákvæðu við það að vera örvhent. Talið er að um 10% mannkyns sé örvhent og því er um minnihlutahóp að ræða. Ergo, ég er sérstök! Erfðir spila ákveðna  rullu en ekki hefur tekist að einangra örvhentu genið en ég hef upplýsingar frá Íslenskri erfðagreiningu um að sú vinna sé langt á veg komin. Örvhentir eiga sinn alþjóðadag sem er 13. ágúst ár hvert og rituð hefur verið BA ritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands sem ber nafnið „Örvhentir á Íslandi. Um viðhorfsbreytingar til örvhentra á 20. öld“.

Einnig hafa rannsóknir sýnt, þó einhverjir vilji meina að þær byggi ekki á mjög djúpum vísindalegum grunni, að örvhentir séu greindari og hafi ríkari sköpunargáfu en rétthentir. Rannsóknir hafa einnig sýnt að örvhentir eru líklegri til að verða áhyggjufullir, feimnir eða skömmustulegir þegar kemur að því að segja eða gera það sem þeir vilja. Ég var alveg einstaklega feimið barn þó að margir myndu segja að feimni væri ekki eitthvað sem væri að há mér á fullorðinsárum.

Með því að vafra um alheimsvefinn og leita upplýsinga um örvhentni  hef ég líka komist að því að í Biblíunni er hægri höndin nefnd 100 sinnum á jákvæðan hátt en sú vinstri er nefnd 25 sinnum og oftast á neikvæðan hátt. Gæti þetta verið skýringin á fordómum sem þessi minnihlutahópur hefur mátt líða í gegnum aldirnar? Mér er í það minnsta slétt sama enda eru ég, Anna í Frozen, Bart Simson og Kermit froskur öll örvhent og þekkt fyrir að fara okkar eigin leiðir.

Ég skora á Sigríði Huld Jónsdóttur skólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri að taka við pennanum.

Áður birst í 11. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir