Af flutningum til Danmerkur - Áskorandapenninn Turid Rós

Nú sit ég fyrir framan arineldinn með tölvuna í kjöltunni og velti því fyrir mér hvernig Þóra náði að plata mig til þess að taka áskoruninni um að setjast niður og skrifa í blaðið. Það brýst um í huga mínum hvað ég eigi nú að skrifa tek svo ákvörðun um að skrifa um nýlega flutninga fjölskyldunnar til Danmerkur. Það er nú ekki langt síðan að við fjölskyldan tókum þá ákvörðun um að svala ævintýraþránni og flytja til annars lands. Við fórum nú svo sem ekkert mjög langt í burtu.

Danmörk hefur átt hug minn og hjarta síðan ég var lítil stelpa, en þá ferðaðist ég til Danmerkur með mömmu, Fjólu heitinni, systur minni og fleirum. Við gengum niður Strikið, fórum í Tívolí og dýragarða og ferðuðumst í lest. Í minningunni var Danmörk björt, hlý og hlaðin af fallegum og góðum minningum. Karlinn fór á undan ásamt dætrunum, því ef að honum líkaði ekki vistin þarna þá var ekki til neins að hafa rifið alla fjölskylduna upp bara til þess eins að flytja heim aftur. Ótrúlegt en satt þá líkaði honum vel þarna úti og núna erum við flutt til Danmerkur. Eitthvað sem ég hefði ekki trúað að hefði verið möguleiki áður fyrr.

Þetta er eins og í öllu, það gengur vel og svo misvel. Þegar ég og yngsti meðlimurinn komum út, erum við nýbúin að festa kaup á einbýlishúsi í litlum yndislegum bæ á Jótlandi í Billund kommúnu. Karlinn búinn að rífa allt úr úr risinu og byrjaður að einangra þakið. Við eyddum mörgum stundum í að skiptast á skoðunum yfir skipulagningu rýmisins í risinu og eftir miklar bollaleggingar og pælingar komumst við að sameiginlegri niðurstöðu (þ.e.a.s ég fékk að hafa lokaorðið í þeim rökræðum eftir að ég sagði við karlinn minn að  þetta myndi ekki verða eins og þegar ég var spurð út í það hvernig hænsnabúrið í Húnaveri ætti að vera sem ekki var svo farið eftir). Síðan var farið í að byggja upp og fékk karlinn dygga aðstoð frá restinni í fjölskyldunni.

Gólf voru einangruð, lagðar gólfplötur, veggir reistir, sparslaðir og málaðir. Það má segja að ég hafi orðið sérfræðingur í að skrúfa skrúfur, saga, rétta af gólf og svo mætti lengi telja. En guð hvað þetta voru margar skrúfur og sparsl vinnan og rykið við að lemja niður múrveggina, pfffff.

 

Hjólhýsi og hallir

Þegar við svo byrjuðum á neðri hæðinni þá bjuggum við í hjólhýsi í rúma fjóra mánuði. Undir það síðasta var aðeins farið að reyna á samskiptahæfni fjölskyldumeðlima auk þess sem að það var orðið svolítið kalt (þá var kominn nóvember).

Á meðan við bjuggum í hjólhýsinu voru reglulega þrumur og eldingar seinnipart dags og langt fram á nóttina, þá stóð mér nú ekki alveg á sama, verandi í einhverju þunnu gímaldi. Börnunum líður vel en auðvitað kemur heimþráin í heimsókn öðru hverju. Þetta hefur kannski verið erfiðast fyrir Þórhalla Gunnar, yngsta barnið okkar, en hann kunni ekkert í dönsku þegar hann kom út og hann saknar vina sinna og kennara í Húnavallaskóla. Ég veit þó að þetta er „once in a lifetime experience“ fyrir börnin og ég vona að þau þakki okkur fyrir síðar á lífsleiðinni.

Stelpurnar eru komnar með vinnu í Legolandi, önnur í hótelþrifum og hin í sjálfum garðinum. Lego er með tvo daga í janúar þar sem allir geta komið og kynnt sér þau störf sem eru í boði og sótt um. Það sem mér þótti fyndnast var að hægt var að sækja um að vera prinsessa, prins og fleiri skemmtilegar Lego fígúrur. Karlinn vinnur sem smiður hjá litlu smíðafyrirtæki og ég er að vinna á öldrunarheimilinu hér í bænum. Við erum einnig að upplifa það í fyrsta skiptið skólaferðalög framhaldsskólanema, en í mörgum skólum hér úti fara krakkarnir einu sinni á ári í ferðalag með skólanum. Það getur verið til Noregs, Þýskalands, Bandaríkjanna, Kína, Skotlands og fleiri landa. Það finnst mér alveg ótrúlega flott.

Um daginn upplifði ég það í fyrsta skiptið hvað konunglega fjölskyldan skiptir miklu máli fyrir marga Dani. Krónprinsinn var búinn að vera veikur og nýgreindur með alzheimer og búinn að vera á milli tannanna á fólki þar sem hann stóð fastur á því að vilja ekki láta grafa sig hjá eiginkonu sinni auk þess sem hann var óánægður með titilinn sinn sem krónprins og vildi vera titlaður konungur.

Margir Danir voru ósáttir við karlinn þá. Síðan deyr karlanginn og útförin sýnd í beinni útsendingu í sjónvarpinu. Allir íbúar öldrunarheimilisins (þ.e.a.s þeir sem gátu það) sátu fastir fyrir framan sjónvarpið og tóku þátt í sorginni og eingöngu falleg og góð orð látin falla um karlinn.

 

Skemmtileg heimsókn

En nóg um konunglegu fjölskylduna. Ég skemmti mér oft vel við að sýna Dönunum myndir að heiman, sérstaklega þegar það snjóar. Því hér úti þá fellur snjórinn jafnt og þétt niður og allt er hvítt en korteri síðar er snjórinn farinn (það er allavega mín reynsla hér). Þá tek ég upp símann og sýni þeim myndir að heiman. Sjálf er ég fegin að vera laus við snjóinn, það má segja að ég hafi verið orðin svolítið þreytt á honum. Hins vegar grínumst við mikið með það að við búum í Rainmark en ekki Denmark því hér rignir mjög mikið. Í september, október, nóvember og desember má segja að hafi rignt stanslaust.

Ég sakna vina minna og fjölskyldu heima á Fróni en það hefur sýnt sig að það er ekki langt til okkar en við fengum nýlega heimsókn frá vinum okkar. Við vissum ekkert af því að þeir væru að koma út og því kom þetta okkur sannarlega skemmtilega á óvart. En ég verð að biðja þau afsökunar á að hafa skellt hurðinni á þau. Mér til varnar hélt ég að ég væri endanlega orðin rugluð. Þetta var yndislegur tími sem við áttum með þeim, en allt of stuttur.

 Nú er ég farin að taka eftir því að lífið er að vakna í náttúrunni. Það er meiri fuglasöngur, einstaka fluga er á flugi hér og þar og blessaðir maurarnir eru að vakna og koma sér upp á yfirborðið. Á meðan að ég sé ekki mítil á hundinum eða risa vespu fljúgandi um þá er þetta í lagi, en ég er farin að undirbúa mig undir það. Hundurinn fær reglulega töflu fyrir mítlum og flóm en því miður verð ég að reyna að sættast við vespurnar, já og þetta blessaða mý. En við fjölskyldan vorum mikið veisluborð fyrir þær síðastliðið haust.

Ég hlakka samt til hlýnandi veðurfars og er glöð með þessa ákvörðun okkar að víkka aðeins sjóndeildarhringinn.

Áður birst í 9. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir